Lögreglan í Nordland-fylki í Noregi er langt komin með rannsókn eins stærsta kynferðisbrotamáls í sögu landsins þar sem misgert er við börn en eins og staðan er núna hefur lögregla fundið 254 börn sem fullorðinn maður greiddi fyrir að bera sig og hafa uppi kynferðislega tilburði á vefmiðlinum Omegle sem nú hefur verið lokað.
Greiddi maðurinn fórnarlömbum sínum, sem eru á aldrinum sjö til þrettán ára, gegnum greiðsluforritið Vipps og gerði myndskeið af athöfnum þeirra sem lögregla hefur nú lagt hald á en maðurinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald en krefst þess þó að vera látinn laus í kjölfar þess er hann játaði að eiga myndefnið.
Komst lögregla á snoðir um þetta umfangsmikla kynferðisbrotamál, það langstærsta sem upp hefur komið í Nordland-fylki, þegar Vipps-greiðsla til tólf ára gamallar stúlku vakti grunsemdir foreldra hennar.
Að sögn Mariu Skog, ákæruvaldsfulltrúa lögreglunnar í Nordland, hefur lögregla fundið nöfn 108 af fórnarlömbum mannsins og beinist rannsókn málsins nú að því að finna þau sem eftir standa og vegna umfangs þeirrar vinnu leggur norska rannsóknarlögreglan Kripos lögreglunni í Nordland lið.
„Það sem börnin velta helst fyrir sér er hvort myndskeiðunum hafi verið deilt,“ segir Charlotte Marie Ringkjøb, réttargæslulögmaður barnanna, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og bætir því við að til allra heilla líti ekki út fyrir að svo sé, efnið sé vistað á gömlum geymslueiningum, utanáliggjandi hörðum diskum. Hefur Ringkjøb þegar átt fundi með 49 barnanna sem misgert var við og foreldrum þeirra.
Thea Flaatten rannsóknarlögreglukona stjórnar rannsókn málsins og greinir NRK frá því að í hvert sinn sem nýtt nafn fórnarlambs komi fram við rannsóknina byrji lögregla á að hafa samband við forráðamenn þess. Viðbrögð þeirra séu æði mismunandi.
„Þau eru mjög misjöfn, eiginlega allur tilfinningaskalinn, þegar þeim er tjáð fyrir hverju börn þeirra urðu. Frá reiði til ótta. Þetta er mesta martröð margra foreldra svo það er erfitt að færa þessar fréttir,“ segir Flaatten.
Vefsíðan Omegle var samskiptamiðill þar sem notendur gátu rætt saman án þess að gefa nokkrar persónuupplýsingar og greina tvær stúlkur, sem þetta mál snýr að, frá því að þær hafi einnig verið þar í sambandi við annan mann sem þær vissu að væri starfsmaður grunnskóla.
Aldurstakmark síðunnar var 18 ár en því var ekki framfylgt að ráði. Greindi TV2 frá því að síðunni hefði verið lokað eftir 14 ára rekstur en hún var kjörlendi kynferðisbrotamanna sem girnast börn.