Lést í íbúð í Bergen

Lögreglan í Bergen fékk tilkynningu í morgun sem vakti áhyggjur …
Lögreglan í Bergen fékk tilkynningu í morgun sem vakti áhyggjur um að ekki væri allt með felldu í íbúð þar í borginni. Ljósmynd/Wikipedia/Tomoyoshi Noguchi

Kona og tveir karlmenn hafa verið færð á lögreglustöð í Bergen í Noregi, án þess þó að um handtöku sé að ræða, í kjölfar andláts í íbúð þar í borg í morgun. Fór lögregla á staðinn á ellefta tímanum í morgun að norskum tíma í kjölfar tilkynningar sem bar með sér að ekki væri allt með felldu í íbúðinni.

Á vettvangi fannst meðvitundarlaus einstaklingur sem lögregla gefur engar upplýsingar um þar sem ekki hefur verið haft samband við aðstandendur enn sem komið er enda hefur lögregla ekki borið kennsl á viðkomandi. Báru lífgunartilraunir ekki árangur og var manneskjan úrskurðuð látin á vettvangi.

Eitt hinna þriggja uppi á þaki

Að sögn Dan Erik Johannessen lögregluvarðstjóra, sem ræðir við norska ríkisútvarpið NRK, hafði lögregla uppi mikinn viðbúnað og mátti meðal annars sjá hvar dróni á vegum lögreglu sveimaði yfir hverfinu í morgun.

„Enginn hefur verið handtekinn enn sem komið er, þessi þrjú hafa ekki hlotið neina formlega stöðu eins og er,“ segir varðstjórinn en eitt þeirra þriggja mun hafa verið statt á þaki hússins er lögreglu bar að garði.

Lögregla verst annars allra frétta en Lars Morten Lothe, stöðvarstjóri miðborgarstöðvar lögreglunnar í Bergen, kveður þær upplýsingar sem lögreglu bárust hafa gefið ástæðu til að kanna hvort allt væri í lagi með þann eða þá sem fannst í íbúðinni.

NRK

Dagbladet

mbl.is