Rauðvínshöfuðverkur útskýrður

Ekki eru þó allir reiðubúnir að fallast á þessa kenningu …
Ekki eru þó allir reiðubúnir að fallast á þessa kenningu rannsakendanna í Kaliforníu. Ljósmynd/Colourbox

Bandarískir rannsakendur við Kaliforníuháskóla telja sig nú hafa leyst þá gamalgrónu ráðgátu hvers vegna sumir rauðvínsunnendur fá höfuðverk eftir jafnvel aðeins eitt lítið glas af því rauða en aðrir ekki – óháð því hvort það sama gildi um aðrar áfengistegundir.

Kenna þeir háskólamenn náttúrulega andoxunarefninu kversetíni um sem rauðvínsþrúgur innihalda í ríkari mæli vaxi þær í sólríku umhverfi, svo sem á vínekrum Kaliforníu í Napa-dalnum og Sonoma.

Kversetín hefur áhrif á það hvernig líkaminn brýtur vínanda niður og útskýrir prófessor Andrew Waterhouse fyrir breska ríkisútvarpinu BBC að þar með séu dýr rauðvín mun háskalegri fyrir þá sem hafa tilhneigingu til að fá rauðvínshöfuðverk en ódýru vínin, þvert á það sem verið hefur hald margra um árabil.

Vísindamenn í Kaliforníu eru lunknir við að velja sér rannsóknarefni …
Vísindamenn í Kaliforníu eru lunknir við að velja sér rannsóknarefni er tengjast landsins gagni og nauðsynjum – svo sem rauðvínsdrykkju. mbl.is/Golli

Ekki fallast allir á það

„Ódýru þrúgurnar vaxa á hávöxnum vínviði með miklu laufskrúði og fá því ekki eins mikið sólskin á meðan hágæðaþrúgur koma af minni plöntum með færri laufum,“ segir prófessorinn.

Ekki eru þó allir reiðubúnir að fallast á þessa kenningu rannsakendanna í Kaliforníu. Prófessor Roger Corder við Queen Mary-háskólann í London segir BBC að höfuðverkjatengsl ódýrari vína séu vel þekkt þar sem í þau sé bætt meiri aukaefnum til að gera þau söluvænni.

Önnur kenning er að súlfít sé sökudólgurinn, efni sem bætt er í fjölda víntegunda til að auka geymsluþol þeirra og lengja þar með mögulegt sölutímabil. Almennt er þó meira um súlfít í sætum vínum en rauðvíni og telja sumir súlfít eingöngu hafa áhrif á höfuðverk hafi fólk ofnæmi fyrir því.

Kversetín og ALDH2-ensímið

Að lokum má nefna að einn af hverjum þremur Austur-Asíubúum hefur óþol gagnvart öllu áfengi þar sem gen sem þeir bera í sér dregur úr virkni ensímsins ALDH2 sem stjórnar niðurbroti áfengis.

Lifrin brýtur áfengi niður í tveimur þrepum, fyrst er það brotið niður í eiturefnið asetaldehíð sem hjá fólki flestu umbreytist nánast samstundis í ediksýru í lifrinni og veldur því ekki eitrun. Antabus-lyf fyrir áfengissjúklinga hindra síðara þrepið með þeim afleiðingum að asetaldehíð safnast upp og veldur heiftarlegri vanlíðan og veikindum.

Þetta segja rannsakendurnir í Kaliforníu að kversetín geri upp að vissu marki með því að draga úr virkni ALDH2-ensímsins og þar með fái þeir sem svo er ástatt upp höfuðverkinn góðkunna. Svo mörg voru þau orð.

BBC

mbl.is