Gríðarleg hitabylgja hefur geisað í Brasilíu undanfarið og á sunnudag mældist mesti hiti sem nokkurn tíma hefur mælst í landinu í bænum Aracuaí í suðausturhluta landsins. Hitastigið mældist 44,8 gráður og sló þannig fyrra met frá árinu 2005 þegar það mældist 44,7 gráður.
Talið er að hitabylgjan tengist veðurfyrirbærinu El Nino og almennum loftslagsbreytingum. BBC greinir frá.
Veðurspár gera ráð fyrir því að hitinn muni eitthvað lækka í vikunni.
Þessi mikla hitabylgja er athyglisverð í því sambandi að sumarið gengur ekki formlega í garð fyrr en eftir um mánuð í Suður-Ameríku. Orkunotkun í Brasilíu er gífurleg þar sem fólk reynir að kæla sig niður með öllum tiltækum leiðum.
Bandaríska poppsöngkonan Taylor Swift aflýsti tónleikum í brasilísku borginni Rio de Janeiro eftir að 23 ára aðdáandi hennar lést í hitanum rétt fyrir tónleikana á föstudag. Ana Clara Benevides Machado kallaði eftir aðstoð á tónleikastaðnum þegar henni fór að líða illa. Hún var flutt á sjúkrahús og lést einni klukkustund síðar.
Vísindamenn segja hitabylgjur farnar að verða lengri og skæðari víðs vegar um heiminn og þeir búast við því að sú þróun haldi áfram á meðan mannkynið haldi áfram að losa gróðurhúsalofttegundir.