Frakkar vilja banna einnota rafrettur

Úrval einnota rafsígaretta með ýmiskonar bragði í verslun í Bethune …
Úrval einnota rafsígaretta með ýmiskonar bragði í verslun í Bethune í norðurhluta Frakklands. Frakkar vilja banna slíkar rafrettur. AFP

Neðri deild franska þingsins hefur samþykkt lagafrumvarp sem bannar sölu á einnota rafrettum sem eru taldar geta leitt til aukinna reykinga meðal ungmenna og séu einnig skaðlegar umhverfinu.

Efri deild þingsins á eftir að fjalla um frumvarpið og einnig þarf framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að staðfesta lögin verði þau samþykkt.

Um er að ræða rafsígarettur sem ekki er hægt að bæta í vökva og þeim er því hent þegar fyllingin er búin. Margar tegundir einnota rafsígaretta innihalda mikið magn nikótíns og eru einnig ódýrar.

„Þær opna leið fyrir alvarlega fíkn,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Aurelien Rousseau, heilbrigðisráðherra Frakklands.

„Þær eru fáránlega ódýrar, og ávaxtabragð og sætubragð eru freistandi. Þá eru þær svo litlar að það er auðvelt að fela þær fyrir foreldrum,“ segir þingmaðurinn Francesca Pasquini, fyrsti flutningsmaður frumvarpsins sem var lagt fram á þinginu í fyrra.

Michel Lauzzana, sem einnig er flutningsmaður frumvarpsins, segir að lyfjastofnun Frakklands hafi skilgreint þessar rafsígarettur sem lævíslega gildru hannaða fyrir börn og unglinga.

Allir viðstaddir þingmenn þingdeildarinnar, 104 að tölu, samþykktu frumvarpið þegar það var borið undir atkvæði. Það nýtur einnig stuðnings Elisabeth Borne, forsætisráðherra Frakklands, sem í september hvatti til þess að einnota rafrettur yrðu bannaðar. Í atkvæðagreiðslunni hvatti þingkonan Rachel Keke raunar til þess að ríkisstjórnin gengi á undan með góðu fordæmi og það var túlkað sem skot á Borne, sem oft sést laumast í rafrettur meðan á þingfundum stendur.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag, 7. desember. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert