Trump: Ef Evrópa sætir árás munum við ekki hjálpa

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og einn frambjóðenda Repúblikana í …
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og einn frambjóðenda Repúblikana í forvali komandi forsetakosninga. AFP/Eduardo Munoz Alvarez

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og einn frambjóðenda Repúblikana í forvali fyrir forsetakosningar í landinu, er sagður hafa sagt að Bandaríkin myndu aldrei hjálpa Evrópu ef álfan sætti árás.

Þetta á hann meðal annars að hafa sagt við Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, á efnahagsráðstefnunni í Davos í Sviss árið 2020.

Þetta segir Thierry Breton sem fer með málefni innri markaðar Evrópusambandsins í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins en Guardian greinir frá.

Einnig á Trump að hafa sagt við sama tækifæri að Atlantshafsbandalagið (NATO) væri dautt og að Bandaríkin myndu ganga úr NATO.

Varaði við endurkomu Trump

„Þú þarft að átta þig á því að ef Evrópa sætir árás þá munum við aldrei koma og hjálpa ykkur,“ hefur Breton eftir Trump. „Atlantshafsbandalagið er dautt og við munum hætta í NATO“, hefur Breton eftir forsetanum fyrrverandi.

Trump hótaði oft á meðan hann sat á forsetastóli að Bandaríkin gengu úr NATO. Þá samsamaði hann sig gjarnan við Vladimír Pútín Rússlandsforseta, sem Trump á að hafa sagt að hafi beðið með að ráðast inn í Úkraínu þar til Trump lét af embætti.

Þá sagði Breton að orð forsetans fyrrverandi hafi verið sér vakning og varaði við endurkomu hans á hið pólitíska svið í valdamesta embætti heims.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka