Grófur stuldur frá Íslendingum í Noregi

Héraðsdómur Óslóar.
Héraðsdómur Óslóar. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Ingvar Ingólfsson, sem búsettur hefur verið í Sandefjord í Noregi, hefur verið dæmdur í 16 mánaða fangelsi fyrir að hafa dregið sér fé úr sjóðum Íslenska safnaðarins í Noregi.

Í dómi Héraðsdóms Óslóar segir að málið teljist sérlega gróft þar sem um sé að ræða háar upphæðir. Er Ingvari gert að greiða söfnuðinum 3.325.606 norskar krónur, jafnvirði 43,6 milljóna íslenskra króna.

Alvarlegur trúnaðarbrestur

Fram kemur í dómi, sem mbl.is hefur undir höndum, að Ingvar hafi sem stjórnarmaður í Íslenska söfnuðinum í Noregi á tímabilinu janúar 2019 til febrúar 2022, þar sem hann hafði meðal annars borið ábyrgð á samþykkt og staðfestingu reikninga, falsað reikninga og notað greiðslukort safnaðarins sem skilaði honum rétt rúmum þremur milljónum norskra króna.

Er Ingvar dæmdur í fangelsi „fyrir að hafa beitt sér gegn hagsmunum annars sem hann stýrir eða hefur eftirlit með í þeim tilgangi að afla sér eða öðrum óréttmæts ávinnings eða valda skaða. Svikin eru sérlega alvarleg því verknaðurinn hafði í för með sér verulegan fjárhagslegan ávinning,“ segir í dómsorðum.

„Við mat á refsingu leggur héraðsdómur áherslu á að um alvarlegan trúnaðarbrest sé að ræða gagnvart söfnuðinum þar sem stefnda var falið mikilvægt trúnaðarstarf. Saknæmu athafnirnar hafa staðið yfir í langan tíma og hefur hann sýnt af sér skýran brotavilja. Heildarupphæðin er há og tapið hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir söfnuðinn.“

Var í fjárhagsvandræðum

Um málsatvik segir að Ingvar hafi sest í stjórn safnaðarins árið 2018, var honum þá falið hlutverk gjaldkera sem fór með fjármálastjórn hans.

„Á einum tímapunkti átti stefndi sjálfur í fjárhagsvandræðum. Þá hóf stefndi að nota fjármuni samtakanna til einkanota auk þess að millifæra fé til sín. Aðferðir hans voru 1) að útbúa gervireikninga. Reikningarnir voru skáldaðir og endurspegluðu ekki raunverulegar kröfur á hendur söfnuðinum. Reikningsnúmerin á reikningnum voru í eigu stefnda sjálfs. Sem gjaldkeri var það stefndi sjálfur sem sá um greiðslurnar. Önnur aðferð 2) var að nota bankakort safnaðarins til einkanota. Loks 3) skráði stefndi of marga vinnutíma og ferðareikninga þannig að hann fékk of háar greiðslur.“

Í ársbyrjun 2022 vakti starfsmaður safnaðarins athygli formanns stjórnar á reikningi sem starfsmanninum þótti einkennilegur. Fundaði formaðurinn í kjölfarið með Ingvari vegna málsins þar sem hann viðurkenndi verknaðinn.

Fyrir dómi viðurkenndi Ingvar brot sín undanbragðalaust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert