Leitað að þekktum sjónvarpslækni

Dr. Michael Mosley.
Dr. Michael Mosley. Mynd: Wikimedia Commons.

Leit stendur yfir að breska þáttagerðarmanninum og rithöfundinum Dr. Michael Mosley á grísku eyjunni Symi. Mosley er hvað þekktastur fyrir þættina Treystu mér ég er læknir, sem sýndir hafa verið í Ríkissjónvarpinu og bókina um 5:2 mataræðið.  

Mosley, sem er 67 ára, skrapp í göngutúr í gær en skildi símann sinn eftir á gististað sínum. Vinir hans og eiginkona hafa lýst eftir honum á samfélagsmiðlum og leit stendur yfir, að því er fréttastofur BBC og Sky News greina frá.

Leitarflokkur hefur verið sendur frá Aþenu með dróna til leitar.

Á eyjunni Symi búa um 3.000 manns og hefur Sky eftir einum íbúa að það sé erfitt að týnast á eyjunni. Allar gönguleiður séu greiðfærar.

Mosley hefur hlotið Emmy-verðlaun fyrir þætti sína sem sýndir hafa verið í sjónvarpi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert