25 ár í fangelsi og 105 milljóna sekt mögu­leiki

Réttarhöldin hafa farið fram í Wilmington í Delaware.
Réttarhöldin hafa farið fram í Wilmington í Delaware. AFP

Hunter Biden, sonur Joe Biden Bandaríkjaforseta, segist þakklátari fyrir stuðninginn og ástina frá fjölskyldunni heldur en hann sé vonsvikinn með niðurstöðu kviðdómsins.

Biden yngri var fyrr í dag sakfelldur í máli sem varðar kaup á skotvopni árið 2018.

Hann var sakaður um að hafa keypt sér skot­vopn und­ir áhrif­um fíkni­efna árið 2018 og ólög­lega haft byss­una und­ir hönd­um í 11 daga. Hon­um var einnig gefið að sök að hafa fært inn rang­ar upp­lýs­ing­ar á eyðublöðum sem fylgdu byssu­kaup­un­um þar sem kraf­ist var að viðkom­andi noti ekki ólög­leg fíkni­efni.

CNN greinir frá.

Þyngsti dómur talinn ólíklegur

Eftir að niðurstaða kviðdómsins varð ljós sagði Biden yngri í tilkynningu bata vera mögulegan og að hann væri þeirrar blessunar aðnjótandi að fá að upplifa það.

Fram kom einnig að lögmannateymi hans myndi nýta alla þá kosti sem stæðu honum til boða í kjölfar sakfellingarinnar.

Í umfjöllun CNN kom fram að líklega færi dómsuppkvaðning fram í október. Gæti Biden yngri átt yfir höfði sér allt að 25 ára fangelsisdóm og 750 þúsund dollara, eða um 105,1 milljóna króna, sekt. Þykir þó ólíklegt að hann muni hljóta svo þungan dóm. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert