Innkalla sterkar núðlur sem geta leitt til eitrunar

Börnm ungmenni og viðkvæmir eiga á hættu að fá bráðaeitrun …
Börnm ungmenni og viðkvæmir eiga á hættu að fá bráðaeitrun við að neyta núðlanna. Ljósmynd/Samyang

Þrjár bragðtegundir af kóresku Samyang-skyndinúðlunum vinsælu hafa verið innkallaðar í Danmörku fyrir að vera of sterkar og er nú óheimilt að selja þær í verslunum.

Bragðtegundirnar sem um ræðir eru Buldak 3x Spicy & Hot Chicken, 2x Spicy & Hot Chicken  og Hot Chicken Stew.

Hefur danska matvælaeftirlitið hvatt neytendur til að skila inn vörunni sem þeir segja innihalda hættulega mikið af efninu kapsaísín, sem má finna í eldpipar. 

Núðlurnar eru fáanlegar á Íslandi.

Höfða til barna og ungmenna 

Segir að neytendur, einkum börn og viðkvæmir fullorðnir einstaklingar, eigi á hættu að hljóta bráðaeitrun við að neyta matvörunar.

Bendir matvælaeftirlitið á að varan sé markaðssett til að höfða til barna á samfélagsmiðlum með ýmsum áskorunum þar sem börn og ungmenni borða mjög sterkar núðlur til að sýna þol.

Börn í Þýskalandi lent á sjúkrahúsi

Bendir matvælaeftirlitið á að fjöldi barna í Þýskalandi hafi þurft að leita á sjúkrahús vegna kapsaísín-eitrunar eftir að hafa tekið þátt í svipaðri samfélagsmiðla-áskorun þar sem þau  neyttu kartöfluflaga með sterku eldpiparsbragði.  

„Magnið af eldpipar er enn meira í núðlunum sem eftirlitið rannsakaði, en í eldpipars-snakkinu sem leiddi til eitrunar hjá börnunum í Þýskalandi. Það er því mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um þessar sterku núðlutegundir og forðist þær,“ segir Henrik Dammand Nielsen, deildarstjóri matvælaeftirlitsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert