Rússnesk herskip til Kúbu

Rússneska herskipið Aðmíráll Gorshkov sigldi við strendur Kúbu í morgun.
Rússneska herskipið Aðmíráll Gorshkov sigldi við strendur Kúbu í morgun. AFP

Rússneskur kjarnorkukafbátur kom til Kúbu í morgun ásamt öðrum flotaskipum rússneska hersins í fimm daga heimsókn. Þykir heimsóknin óvenjuleg vegna mikillar spennu á milli Rússlands og Bandaríkjanna. 

Kafbáturinn, sem ber nafnið Kaza, sást ásamt rússneska herskipinu Aðmíráli Gorshkov rétt við strendur Havana í morgun. Stjórnvöld Kúbu hafa þó gefið út að kafbáturinn beri ekki með sér nein kjarnavopn í heimsókninni.

Þykir heimsóknin óvenjuleg að því leyti að rússneski herinn er nú staddur óvenjulega nálægt Bandaríkjunum og þá sérstaklega með kjarnorkuknúinn kafbát, en eyjan Kúba er rúmlega 145 kílómetrum frá ströndum Flórída.

Tengsl styrkjast á milli Kúbu og Rússlands

Mikil spenna ríkir á milli Bandaríkjanna og Rússlands eftir innrás Rússa inn í Úkraínu, en hefur innrásin verið fordæmd af Bandaríkjamönnum sem á sama tíma hafa lýst yfir stuðningi við Úkraínu og hjálpað stjórnvöldum þar í landi.

Á meðan hafa Rússar hins vegar styrkt tengsl sín við Kúbu en bandalag þeirra á milli hefur orðið nánara eftir fund á milli forseta landanna, Miguel Diaz-Canel og Vladímir Pútín, árið 2022.

Tilkynntu þá kúbversk stjórnvöld í morgun að utanríkisráðherra þeirra, Bruno Rodriguez myndi hitta starfsbróður sinn frá Rússlandi, Sergei Lavrov, í Moskvu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert