Varaði við eldhættu vegna hitabylgju

Eldsvoðar áttu sér stað á Grikklandi í kjölfar hitabylgju á …
Eldsvoðar áttu sér stað á Grikklandi í kjölfar hitabylgju á síðasta ári. AFP

Vassilis Kikilias, almannavarnaráðherra Grikklands, hefur varað við eldhættu vegna hitabylgju í landinu.

Veðurfræðingar segja þetta vera í fyrsta sinn í skráðri sögu Grikklands sem hitabylgja hafi verið svona snemma á árinu.

Grikkland telur hitabylgju vera þegar hitastig er yfir 38 gráðum í að minnsta kosti þrjá daga í röð en í dag varð hitastigið 42 gráður í Aþenu, höfuðborg Grikklands, og 44,5 gráður á Krít, sem er eyja á Miðjarðarhafi.

Akrópólis lokað annan daginn í röð

Vegna hitans í dag var Akrópólis í Aþenu, einum vinsælasta ferðamannastað landsins, lokað á heitustu tímum dagsins annan daginn í röð.

Kikilias hefur varað við eldhættu vegna hvassviðris sem gæti geisað um landið. Ráðuneyti hans hefur einnig varað við því að líkur á eldsvoðum á morgun séu mjög miklar á tíu svæðum í Grikklandi, en gert er ráð fyrir að hitastigið lækki eftir það.

Tveggja vikna hitabylgja átti sér stað í Grikklandi í júlí á síðasta ári en henni fylgdu fjölmargir eldsvoðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert