Flokkur Farage tekur fram úr Íhaldsflokknum

Flokkur Farage hefur verið á flugi síðan hann tilkynnti um …
Flokkur Farage hefur verið á flugi síðan hann tilkynnti um framboð. AFP/Benjamin Cremel

Umbótaflokkurinn (e. Reform UK) mælist nú í fyrsta sinn með meira fylgi en Íhaldsflokkurinn í nýrri skoðanakönnun. Allt stefnir í stórsigur Verkamannaflokksins í þingkosningum þann 4. júlí.

Þetta kemur fram í könnun YouGov sem Telegraph greinir frá.

Verkamannaflokkurinn mælist með 37% fylgi, Umbótaflokkurinn mælist með 19% fylgi og Íhaldsflokkurinn með 18% fylgi. Þar á eftir koma Frjálslyndir demókratar með 14%.

Græningjar og aðrir flokkar mælast með 7% eða minna.

Nigel Farage hefur verið leiðtogi Umbótaflokksins í kosningabaráttunni síðan hann tilkynnti um framboð í síðustu viku.

Íhaldsflokkurinn klofinn í herðar niður

Íhaldsflokkurinn virðist klofinn í herðar niður en Umbótaflokkurinn hefur sankað að sér mörgum kjósendum og stuðningsmönnum Íhaldsflokksins. Hefur flokkurinn lagt megináherslu á stöðu innflytjendamála í landinu.

Hingað til hafa íhaldsmenn sagt að atkvæði greitt Umbótaflokknum sé til þess fallið að tryggja Verkamannaflokknum meirihluta. Í kjölfar könnunarinnar hefur Farage nú byrjað að nota þennan málflutning gegn Íhaldsflokknum.

„Þetta er vendipunkturinn. Eina atkvæðið sem er sóað núna er atkvæði greitt Íhaldsflokknum,“ sagði Farage á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert