Íslenskt SO2 í Edinborg: tvöþúsundföld aukning

Eldgos við Sund­hnúka virðist hafa haft áhrif á loftgæði Edinborgar.
Eldgos við Sund­hnúka virðist hafa haft áhrif á loftgæði Edinborgar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fordæmalaus aukning á brennisteinsdíoxíði (SO2) hefur mælst í Edinborg í Skotlandi. Talið er að eldgosinu í Sundhnúkagígum sé um að kenna. BBC greinir frá.

Vísindamenn telja að sterk­ir vind­ar hafi borið meng­un­ina frá gos­inu til borg­ar­inn­ar.

SO2 hefur ekki mælst í meira mæli í andrúmslofti í skosku höfuðborginni síðan á áttunda áratug síðustu aldar, þegar stóriðja réði þar ríkjum.

2.322 sinnum meira SO2 í lofti

Tveimur dögum eftir að eldgosið hófst mældist 1.161 míkrógrömm af brennisteinsdíoxíði á rúmmetra af andrúmslofti, í St. Leonard's-stræti í suðurhluta borgarinnar.

Á venjulegum degi í borginni mælist um 0,5 míkrógrömm af SO2 í andrúmslofti. Er því um að ræða 2.322 sinnum meira SO2 í andrúmslofti en venjulega.

Vísindamenn Miðstöðvar vist- og vatnafræði í Bretlandi (UKCEH) segja að almenningi stafi engin hætta vegna mengunarinnar. Segja þeir þó að atvikið sé „gífurlega óvenjulegt“.

Til gam­ans má geta að Ed­in­borg er tæp­lega 1.368 kíló­metr­a frá Reykja­nesskag­an­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert