Öfgahægrimaður grunaður um að stinga barn

Lögreglan í Finnlandi. Mynd úr myndasafni.
Lögreglan í Finnlandi. Mynd úr myndasafni. AFP/Janne Nousiainen

Finnsk yfirvöld segja 33 ára gamlan öfgahægrimann grunaðan um að hafa stungið og alvarlega slasað tólf ára barn í Finnlandi.

Maðurinn hafi stungið barnið margoft í verslunarmiðstöð í borginni Oulu í norðurhluta Finnlands á fimmtudag.

Hann er einnig sagður hafa reynt að ráðast á annað barn, sem var með fórnarlambi árásarinnar. Bæði börnin eru finnskir ríkisborgarar af erlendum uppruna.

Fyrrverandi meðlimur nýnasistahóps

Finnska rannsókarlögreglan segir barnið vera alvarlega slasað en að ástand þess sé stöðugt. Þá hafi öryggisvörðum í verslunarmiðstöðinni tekist að stoppa árásarmanninn áður en hann olli meiri skaða.

Finnska ríkisútvarpið YLE, greindi frá því að maðurinn væri fyrrverandi meðlimur í norrænu andspyrnuhreyfingunni, sem var nýnasistahópur sem var bannaður í Finnlandi árið 2020.

Meintur árásarmaður hefur áður verið dæmdur fyrir að stinga manneskju á viðburði öfgahægrimanna á bókasafni árið 2013.

Forsætisráðherra Finnlands, Petteri Orpo, hefur fordæmt árásina á samfélagsmiðlinum X. Hann segir hana vera huglausa og ofbeldi frá öfgahægrimönnum vera raunverulega ógn í Finnlandi. Það sé engin staður á landinu fyrir öfga af neinu tagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert