Samþykktu varanlegan stuðning við Úkraínu

Leiðtogafundur G7-ríkjanna fer fram um þessar mundir.
Leiðtogafundur G7-ríkjanna fer fram um þessar mundir. AFP

Leiðtogar G7-ríkjanna hafa gefið frá sér viljayfirlýsingu þess efnis að stuðningur þeirra við Úkraínu haldi áfram þangað til frelsi landsins og enduruppbygging þar verði að veruleika. 

„Við stöndum sameinuð í stuðningi okkar við frelsisstríð Úkraínu og enduruppbyggingu landsins, sama hve lengi það tekur,“ segir í yfirlýsingunni. 

Leiðtogarnir samþykktu á leiðtogafundi G7-ríkjanna að lána Úkraínu 50 milljarða dala sem verður fjármagnað með eignum Rússa sem hafa verið frystar.

Gagnrýndu framferði Kína

Þá gagnrýndu leiðtogarnir framferði Kína á ýmsum sviðum, þar á meðal vegna losunar gróðurhúsalofttegunda og vegna ofþenslu iðnaðar.

Leiðtogarnir kröfðust þess einnig að yfirvöld í Kína hættu vopnasendingum til Rússlands og sögðust einnig mótfallnir ögrunum kínverska hersins í Suður-Kínahafi, sem leiðtogarnir segja að hindri frelsi til athafna á sjó. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert