Skipverja saknað eftir árásir Húta á Rauðahafi

Flutningaskip hafa ítrekað mátt þola árásir Húta á Rauðahafi frá …
Flutningaskip hafa ítrekað mátt þola árásir Húta á Rauðahafi frá því í nóvember. AFP

Eins skipverja af gríska flutningaskipinu Totor er saknað eftir árás Húta á Rauðahafi í vikunni.

Frá því í nóvember hafa flutningaskip ítrekað orðið fyrir árásum frá Hútum á Rauðahafi.

Áhöfn Totor yfirgaf skipið og var henni bjargað í land en leki komst í vélarrými skipsins, sem siglir undir líberískum hentifána. Skipið var á leið til Indlands.

Önnur árás í gær

Í gær gerðu Hútar árás á flutningaskipið Verbena og særðist skipverji alvarlega eftir að tvö flugskeyti hæfðu skipið í Adenflóa, suður af Jemen. Áhöfninni á Verbena tókst að slökkva eld sem kom upp í skipinu og hélt það áfram ferð sinni um Adenflóa.

Yfirlýst markmið árása Húta, sem studdir eru a klerkastjórninni í Íran, er samstaða með Palestínumönnum í stríði Ísraels og hryðjuverkasamtakanna Hamas. Hafa Hútar í kjölfarið mátt þola gagnárásir frá Bandaríkjamönnum og Bretum.

Árásir Húta hafa valdið því að tryggingarkostnaður hefur hækkað verulega fyrir skip sem sigla um Rauðahaf. Þar að leiðandi hafa mörg skipafyrirtæki ákveðið að nýta aðrar og lengi siglingaleiðir til að forðast árásirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert