Stunginn með sverði í Ósló

Táningar lögðu til manns á fimmtugsaldri með sverði í Ósló …
Táningar lögðu til manns á fimmtugsaldri með sverði í Ósló í því sem lögregla telur hafa verið ránstilraun. Maðurinn hlaut áverka á handlegg. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Lögreglan í Ósló í Noregi handtók mann á sjöunda tímanum í kvöld að staðartíma og er sá grunaður um að hafa stungið mann á fimmtugsaldri í handlegginn með sverði á Rødeløkka þar í borginni, en sá er ekki alvarlega særður.

Fjöldi lögreglubifreiða hélt á vettvang eftir að tilkynnt var um líkamsárás og menn sem forðað hefðu sér af vettvangi á hvítri bifreið. Leið ekki á löngu uns téð bifreið var stöðvuð og reyndust í henni tveir tæplega tvítugir menn. Handtók lögregla annan þeirra eftir að hafa framkvæmt leit í bifreiðinni og fundið meint árásarvopn.

Að líkindum ránstilraun

Eftir því sem Svein Arild Jørundland lögregluvarðstjóri greinir norska ríkisútvarpinu NRK frá lagði lögregla hald á vopnið og kom þeim, er misgert var við, undir læknishendur, en það var hann sjálfur sem hafði samband við lögreglu eftir árásina.

Að sögn Jørundland gengur lögregla út frá því að um ránstilraun hafi verið að ræða og árásarmaðurinn eða -mennirnir hvorki þekkt fórnarlamb sitt né átt nokkuð vantalað við það.

NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert