Náðar um hundrað þúsund manns vegna óréttlætis

Wes Moore, ríkisstjóri Maryland.
Wes Moore, ríkisstjóri Maryland. AFP

Ríkisstjóri Maryland-ríkis í Bandaríkjunum, Wes Moore, gaf út fjölda náðana í víðtækri aðgerð í gær þar sem felldar voru niður 175.000 sakfellingar vegna maríjúana-vörslu. Ná niðurfellingarnar til um 100.000 einstaklinga.

Náðanirnar ná yfir fjölda áratuga í ríkinu og beinast að þeim sem sakfelldir voru fyrir vörslu á lágmarksmagni efnisins.

Moore, sem er fyrsti svarti ríkisstjóri Maryland, sagði í yfirlýsingu að með þessu væri tekist á við félagslegt og efnahagslegt ójafnrétti sem lengi hefði haft áhrif á tugþúsundir svartra manna í ríkinu.

Kvaðst hann vilja bæta skaða sem nær áratugi aftur í tímann vegna fíkniefnastefnu sem tók svart fólk fyrir í hlutfallslega meiri mæli og hafði þar af leiðandi bein áhrif á tækifæri þess, til að mynda hvað varðar aðgengi að húsnæði, menntun og atvinnu.

Þrisvar sinnum líklegri

Sagði Moore að næstum helmingur allra handtaka vegna fíkniefnabrota í upphafi aldarinnar hefðu verið fyrir vörslu kannabis. Þá hafi svart fólk í ríkinu verið þrisvar sinnum líklegra til að sæta gæsluvarðhaldi vegna brotanna heldur en hvítt fólk.

„Í dag tökum við stórt skref með því að setja fram alls kyns stefnur sem geta snúið við skaða fortíðarinnar og til að hjálpa okkur að vinna saman að því að byggja upp bjartari framtíð,“ sagði Moore þegar hann skrifaði náðanirnar í lög við hátíðlega athöfn í höfuðborg ríkisins, Annapolis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert