Ný skýrsla, sem unnin var af loftslagsvísindamönnum og íþróttamönnum, varar við þeirri hættu sem stafar af miklum hita á Ólympíuleikunum í París í ár.
Skýrslan sem kallast „Ring of Fire“ var unnin af samtökunum Climate Central, en þau skipa fræðimenn við háskólann í Portsmouth í Bretlandi og ellefu ólympíufarar. Í skýrslunni segir að aðstæður í París í sumar gætu orðið verri en þær voru í síðustu Ólympíuleikum, sem haldnir voru í Tókýó árið 2021.
Ring of Fire-skýrslan hvetur skipuleggjendur íþróttaviðburða á borð við Ólympíuleika og Heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu til að endurskoða tímasetningar viðburðanna.
Í skýrslunni er varað við því að mikill hiti gæti leitt til þess að keppendur myndu hrynja niður og í versta falli deyja.
Ólympíuleikarnir í París, sem munu standa yfir frá 26. júlí til 11. ágúst, eiga að fara fram í þeim mánuðum sem venjulega eru hlýjustu mánuðirnir í París, en þar hafa hitabylgjumet verið slegin reglulega á undanförnum árum.
Rúmlega 5.000 manns dóu í Frakklandi vegna mikils sumarhita á síðasta ári þegar hiti mældist yfir 40°C víðs vegar um landið, samkvæmt opinberum heilsufarsgögnum.