Bretar hefja nýtt þorskastríð

Hinn breski Daniel Pipe alsæll med 46,6 kg þorskinn sem …
Hinn breski Daniel Pipe alsæll med 46,6 kg þorskinn sem hann dró og gæti verið heimsmet upp á lengdina, 160 sentimetra. Halvorsen staðarhaldari ætlar sér nú að reyna að hrifsa metið úr höndum nágranna síns og keppinautar á Sørøya. Ljósmynd/Úr einkasafni

Þorskur, sem breski ferðamaðurinn Daniel Pipe fékk á öngul sinn í sjóstangveiði í Lopphavet í Finnmörk í Norður-Noregi, gæti komið veiðimanninum á spjöld Heimsmetabókar Guinness. Fiskurinn reyndist 160 sentimetra langur og vigtaðist 46,6 kílógrömm þegar loksins tókst að koma honum á vigt.

Pipe dvelur með hópi annarra stangveiðiferðamanna hjá Steinari nokkrum Halvorsen en sá rekur veiðiparadísina Sandland brygge í sveitarfélaginu Loppa sem er um miðja vegu milli Tromsø og Hammerfest, en öllu norðar verður ekki komist á meginlandi Evrópu.

„Þeir gátu ekki vigtað hann í bátnum. Þeir voru með vigt en náðu ekki að lyfta honum upp á hana,“ segir staðarhaldarinn Halvorsen í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og segir þorskinn mögulega heimsmet. Hann hefur rekið fyrirtæki sitt í fjórtán ár en aldrei séð þorsk í líkingu við þann sem Bretinn dró úr greipum Ægis aðfaranótt þriðjudags.

Tvö gild met við Sørøya

Halvorsen eygir nú möguleikann á að hrifsa gildandi heimsmet úr höndum keppinautar síns og nágranna á Sørøya og hefur þegar sent þeim metaglöggu Guinness-mönnum erindi með fyrirspurn um hvort þorskur Bretans teljist heimsmet. Nýtt þorskastríð kann því að vera í uppsiglingu í nyrstu byggðum Noregs.

Halvorsen veit til þess að við Sørøya hafi þorskur verið dreginn sem vó 0,4 kílógrömmum meira en þorskur Pipes. Lengd nýja þorsksins gæti hins vegar dugað til heimsmets.

Téðan þorsk fékk hinn þýski Michael Eisel á öngul sinn árið 2013. Samkvæmt bókum The International Gamefish Association er þyngdarmet atlantshafsþorsks 47,02 kílógrömm en lengdarmet 127 sentimetrar sem er töluvert undir lengd þess nýdregna. Bæði metin voru sett við Sørøya.

En fiskisögur fljúga og sú ævintýralegasta hvað þorsk snertir er líklega frá árinu 1888 eftir því sem Finnmark Dagblad hefur grafið upp. Þá á einhver að hafa landað 96 kílógramma þorski.

Nú hafa Bretarnir fengsælu hins vegar fengið „blod på tann“ eins og sagt er og sækja nú grimmt til hafs hjá Halvorsen því næst er ætlunin að setja heimsmet í lúðu.

NRK

NRKII (þorskur Þjóðverjans árið 2013)

NRKIII (heimsmet í Kjøllefjord árið 2018)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert