Refsikrafa fyrnd en bætur dæmdar

Myntir sem lögregla nýtti við rannsókn málsins á sínum tíma …
Myntir sem lögregla nýtti við rannsókn málsins á sínum tíma en refsikrafa í málinu reyndist fyrnd. Ljósmynd/Sænska lögreglan

Fyrrverandi starfsmaður Konunglega myntsafnsins í Stokkhólmi í Svíþjóð hefur verið dæmdur til að greiða safninu rúmlega eina og hálfa milljón sænskra króna, jafnvirði um 20 milljóna íslenskra króna, fyrir stórfelldan þjófnað á mynt frá safninu sem hann var ákærður fyrir auk þess að hafa selt þýfið á uppboðum fyrir alls 3,7 milljónir, 49 milljónir íslenskra króna.

Ákært var fyrir þessa tvo ákæruliði, þjófnaðinn og söluna, árið 2019 en ákæruvaldið hlaut ekki meðbyr fyrir héraðsdómi. Brotið var einfaldlega fyrnt. Tíu ár voru liðin frá því þjófnaðurinn var framinn þegar ákæran var gefin út og maðurinn sýknaður í héraði.

Sænska millidómstigið, hovrätten, staðfesti dóm héraðsdóms og ríkið áfrýjaði til hins æðsta, Hæstaréttar Svíþjóðar, sem tók málið fyrir í fyrra. Þar var niðurstaðan sú sama um hugsanlega refsingu en Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að skaðabótaábyrgð ákærða væri ófyrnd þótt ekki væri unnt að dæma hann til refsingar.

Skaðabótamál ríkisins hefst

Þar með höfðaði ríkið skaðabótamál og byrjaði aftur á byrjunarreit með það. Krafan var tæpar fjórar milljónir, sama upphæð og stefndi hagnaðist á við sölu þýfisins. Sá dómur féll í dag og var niðurstaðan fyrrgreind ein og hálf milljón.

Rökstuddi dómurinn niðurstöðu sína með því að „sláandi“ væri að svo margar myntanna, sem maðurinn seldi, væru sömu gerðar og þýfið frá safninu. Var þar um mörg hundruð eintök að ræða og hefði safnið ekki fært sönnur á að allar seldu myntirnir hefðu verið eign þess.

Rúbla frá rússnesku keisarafjölskyldunni, mynt frá víkingaöld og bandarískir dalir frá 19. öld eru meðal þeirra safngripa sem hurfu og starfsmanninum fyrrverandi var gefið að sök að hafa tekið ófrjálsri hendi.

SVT

SVTII (sýknaður árið 2022)

Aftonbladet (dómur Hæstaréttar í mars í fyrra)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert