Tveir slasaðir eftir sprengingu í Ósló

Silurveien í Ullern þar sem rannsóknarstofan er. Tveir slösuðust þar …
Silurveien í Ullern þar sem rannsóknarstofan er. Tveir slösuðust þar í sprengingu í morgun, annar alvarlega. Ljósmynd/Wikipedia.org/Jan-Tore Egge

Tveir eru slasaðir, annar þar af með alvarleg brunasár, eftir sprengingu á rannsóknarstofu við Silurveien í Ullern í norsku höfuðborginni Ósló á tíunda tímanum í morgun að staðartíma.

Enn er ekkert vitað um orsök sprengingarinnar eftir því sem Per Ivar Iversen lögregluvarðstjóri greinir norska ríkisútvarpinu NRK frá en sá sem hlaut alvarlegri meiðslin var fluttur með hraði á Ullevål-sjúkrahúsið. Sjúkraflutningamenn gerðu að meiðslum hins á vettvangi.

Slökkvilið hefur nú ráðið niðurlögum eldsins í rannsóknarstofunni sem staðsett er í stórri byggingu þar sem meðal annars Háskólinn í Ósló og Læknavakt Vestur-Óslóar hafa starfsaðstöðu.

Læknanemar í prófi

Lögregla mun framkvæma frumrannsókn á vettvangi þegar slökkvilið hefur yfirgefið hann og segir Iversen fólki, sem nærstatt var þegar sprengingin varð, vera nokkuð brugðið. Ekki sé þó um frekari hættu að ræða á vettvangi.

Eftir því sem dagblaðið Aftenposten greinir frá þreyttu læknanemar próf á hæðinni fyrir neðan rannsóknarstofuna þegar sprengingin varð.

Ekkert er enn vitað um hvers konar efni eru til staðar þar sem sprengingin varð.

NRK

VG

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert