Íslendingurinn ekki talinn í lífshættu

Skjáskot úr myndbandi af slysinu.
Skjáskot úr myndbandi af slysinu.

Íslendingurinn sem særðist í nautaati, nærri Alicante á Spáni, er ekki lengur talinn í lífshættu. Vísir greindi fyrst frá þessu.

Atvikið átti sér stað í gær, en að sögn spænska miðlisins El Espanol er líðan hans nú stöðug og dvelur hann nú á spítala í borginni. 

Skjót viðbrögð lækna

Maðurinn hlaut alvarlega áverka á síðu og innra læri, en litlu mátti muna að slagæð hans rofnaði. Læknar sem voru viðstaddir nautaatið brugðust skjótlega við og komst maðurinn fljótt undir læknishendur. Tímabundið hlé var einnig gert á viðburðahaldi vegna slyssins.

Atið fór fram í bænum Jaeva, og er hluti af árlegu bous al car­rer-nautahlaupi sem haldið er til heiðurs dýrlingnum Joan af Alicante. Myndband af atvikinu má sjá á vef spænska miðlinsins Xabia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert