Rússneskur kennari dæmdur í 20 ára fangelsi

Rússneskur kennari hefur verið fangelsaður í 20 ár eftir að …
Rússneskur kennari hefur verið fangelsaður í 20 ár eftir að hann sendi peninga til Úkraínu. AFP/Marcus Brandt

Rússneskur herdómstóll hefur dæmt rússneskan kennara í 20 ára fangelsi fyrir landráð þar sem hann var sakaður um að hafa sent peninga til Úkraínu. Maðurinn sagði að samstarfsmenn hafi tilkynnt hann til yfirvalda.

Rússland hefur beitt hörðum aðgerðum gegn þeim sem styðja við Úkraínu frá því að stríðið byrjaði, en þúsundir manna hafa verið fangelsaðir eða sektaðir. 

Kennarinn sem heitir Daniil Kliuka er 27 ára gamall og mun eyða fimm árum í fangelsi og fimmtán árum í mjög ströngum refsivistarbúðum. 

Neyddur til að játa

Dómurinn var kveðinn upp í gær þar sem Kliuka var ákærður fyrir landráð og stuðning við hryðjuverkastarfsemi. 

Kliuka sagði að peningafærslurnar sem fundust í síma hans hefðu verið sendar til ættingja sem búa á hernumdu svæði í Úkraínu. Hann segir að hann hafi verið neyddur til þess að játa að hann væri að fjármagna Azov-hersveitina, sem Rússland hefur flokkað sem hryðjuverkasamtök. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert