Fara fram á skaðabætur frá NASA vegna aðskotahlutar

Bandarísk fjölskylda fer fram á skaðabætur frá NASA vegna aðskotahlutar …
Bandarísk fjölskylda fer fram á skaðabætur frá NASA vegna aðskotahlutar sem féll á þak heimilis þeirra í mars. AFP/ Miguel J. Rodriguez

Bandarísk fjölskylda krefst þess að NASA greiði sér rúma 80.000 bandaríkjadali, eða rúmar ellefu milljónir íslenskra króna, eftir að lítið brak féll úr geimnum og hafnaði á þaki heimilis hennar í Flórída. 

Samhliða aukinni umferð um geiminn hefur vandamálum fjölgað í tengslum við rusl sem þaðan fellur. Viðbrögð NASA í tengslum við umrætt mál geta því skipt sköpum þar sem málið mun að öllum líkindum hafa fordæmisgildi í sambærilegum málum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá lögfræðistofu fjölskyldunnar, Cranfill Sumner.

Hluturinn fór í gegnum þakið

Það var þann 8. mars síðastliðinn sem aðskotahluturinn, sem vó einungis um 700 grömm, lenti á heimili Alejandro Oteros og fjölskyldu hans í Naples í Flórída, með þeim afleiðingum að gat kom á þakið. 

NASA staðfesti síðar að um væri að ræða hluta af bretti sem hafði að geyma notaðar rafhlöður, en brettið var losað frá Alþjóðlegu geimstöðinni árið 2021 og skilgreint sem úrgangur. 

Í stað þess að sundrast að fullu áður en það féll til jarðar þá hélst hluti þess ósnortinn þegar hann fór í gegnum gufuhvolfið, sagði í útskýringum bandarísku geimferðastofnunarinnar. 

Hér má sjá umræddan aðskotahlut eða hluta úr brettinu sem …
Hér má sjá umræddan aðskotahlut eða hluta úr brettinu sem var losað frá Alþjóðlegu geimstöðinni árið 2021. AFP/NASA

Hefði getað orðið banaslys

Sonur Oteros var í húsinu þegar aðskotahluturinn féll til jarðar og segir í yfirlýsingu frá lögfræðistofunni að fjölskyldan fari fram á viðunandi skaðabætur til að vinna úr áfallinu og þeim áhrifum sem atvikið hefur haft á líf þeirra. 

Eru NASA gefnir sex mánuðir til að bregðast við kröfunni. Þá segir í yfirlýsingunni að fjölskyldan sé þakklát fyrir að ekki hafi farið verr, en jafnframt áréttað hversu illa hefði getað farið ef einhver hefði fengið hlutinn í sig eða á. 

„Það hefðu getað orðið alvarleg meiðsl eða banaslys,“ er haft eftir lögfræðingi fjölskyldunnar, Mica Nguyen Worthy, í yfirlýsingunni. 

Fréttastofa AFP óskaði eftir viðtali við fulltrúa NASA vegna málsins en hefur engin svör fengið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert