„Ég er hræddur um framtíð barnabarnsins míns“

Mótmælendur krefjast kosninga.
Mótmælendur krefjast kosninga. AFP/Jack Guez

Tugþúsundir mótmælenda veifuðu ísraelska fánanum og hrópuðu slagorð gegn ríkisstjórn Benjamíns Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, í Tel Aviv í gær. Mótmælendur kröfðust kosninga og frelsunar gíslanna frá Gasa. 

Vikulega hafa átt sér stað stórtæk mótmæli í Tel Aviv vegna framgöngu Netanjahú í stríðinu á Gasa.

Á skiltinu má sjá mynd af 19 ára Oz Daniel …
Á skiltinu má sjá mynd af 19 ára Oz Daniel sem er gísl Hamas-hryðjuverkasamtakanna. Fjölskyldur gíslana krefjast þess að þeir verði frelsaðir. AFP/Jack Guez

„Stöðvum stríðið“

Margir mótmælenda héldu á skiltum þar sem á stóð „Glæpamálaráðherra“ og „Stöðvum stríðið“.

„Ég er hér vegna þess að ég er hræddur um framtíð barnabarnsins míns. Það verður engin framtíð fyrir það ef við förum ekki út og losum okkur við þessa hræðilegu ríkisstjórn,“ sagði hinn 66 ára Shai Erel í samtali við blaðamann AFP. 

Yuval Diskin, fyrrverandi yf­ir­maður ísra­elsku leyniþjón­ust­unn­ar Shin Bet, fordæmdi Netanjahú er hann ávarpaði mannfjöldann og sagði hann „versta forsætisráðherra Ísraels“.

Margir hafa lýst yfir vonbrigðum sínum með stjórn landsins og saka ríkisstjórnina um að stofna öryggi landsins og gíslanna í hættu með því að draga stríðið á Gasa á langinn. 

Ættingjar gíslanna kveiktu eld í Tel Avív.
Ættingjar gíslanna kveiktu eld í Tel Avív. AFP/Jack Guez

„Ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnin falli“

Samtökin Hofshi-Ísrael, sem beita sér markvisst gegn ríkisstjórn landsins, áætla að rúmlega 150.000 manns hafi verið samankomnir við mótmælin í dag. Samtökin segja mótmælin þau stærstu síðan stríðið hófst í október. 

Sumir mótmælenda lágu í jörðinni á lýðræðistorgi borgarinnar, þaktir rauðri málningu, til að mótmæla því sem þeir segja vera dauða lýðræðis í landinu undir stjórn Netanjahú.

Yoram, 50 ára fararstjóri, er einn þeirra sem hefur verið viðstaddur mótmæli í borginni vikulega. Hann segir að Ísraelar hefðu þurft kosningar „í gær“ vegna Netanjahú.

„Ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnin falli,“ bætti hann við og hélt áfram.

„Ef við kjósum ekki fyrr en áætlað er að kosningar verði haldnar árið 2026 þá verður kosningin ekki lýðræðisleg.“

Við erum ekki ríkisstjórnin okkar stóð á einu skiltinu.
Við erum ekki ríkisstjórnin okkar stóð á einu skiltinu. AFP/Jack Guez
Ísraelska fánanum var veifað og mótmælaskiltum var haldið á lofti.
Ísraelska fánanum var veifað og mótmælaskiltum var haldið á lofti. AFP/Jack Guez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert