Fær að vita stöðuna í leik Englendinga

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands.
Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Keir Starmer, nýskipaður forsætisráðherra Bretlands, fylgist spenntur með gengi Englendinga á Evrópumótinu í knattspyrnu í Þýskalandi þótt hann sé staddur á leiðtogafundi Atlandshafsbandalagsins í Washington.

Englendingar mæta Hollendingum í síðari undanúrslitaleiknum á Evrópumótinu í kvöld og segist Starmer í viðtali við GB News hafa beðið starfsfólk á leiðtogafundinum að ganga úr skugga um að hann verði upplýstur um stöðuna í leiknum en á sama tíma og leikurinn fer fram situr hann fund Norður-Ameríkuráðsins.

Ekki er leyfilegt að vera með síma á fundinum svo Starmer treystir á að hann fái upplýsingar um stöðuna í leiknum með öðrum hætti.

„Ég hef sent liðinu skilaboð og óska því auðvitað góðs gengis. Ég vil að það vinni og vona að það geri það,“ segir Starmer.

Englendingar slógu lið Sviss út í átta liða úrslitunum þar sem úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni en Bukayo Saka, leikmaður Arsenal, jafnaði metin fyrir Englendinga í leiknum sem endaði 1:1 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu.

Er dyggur stuðningsmaður Arsenal

Starmer hefur verið dyggur stuðningsmaður Arsenal frá unga aldri og hann var ánægður með sinn mann í leiknum gegn Sviss.

„Þetta var dæmigert hjá Saka. Hann tók manninn á setti boltann í netið alveg út við stöngina. Ég hef séð þetta oft áður hjá honum,“ segir breski forsætisráðherrann.

Og ef leikurinn fer í vítaspyrnukeppni í kvöld segir hann það góðan fyrirboða fyrir enska liðið.

„Ég minni á að England hefur ekki misnotað víti undir stjórn ríkisstjórnar Verkamannaflokksins sem fékk sögulega góða kosningu í þingkosningunum á dögunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert