Á síðustu þremur vikum hafa þrír göngugarpar látið lífið í Miklagljúfursþjóðgarðinum (e. Grand Canyon National Park) sem er staðsettur í Arizona-ríki í Bandaríkjunum.
Bandaríska fréttveitan ABC News greinir frá.
Á sunnudag fannst 50 ára gamall karlmaður látinn í garðinum. Nærstaddir hófu endurlífgunartilraunir en þær báru ekki árangur.
Hinir tveir göngugarparnir sem létu lífið í þjóðgarðinum fundust 1. júlí og 16. júní. Þeir voru 69 ára og 41 árs.
Varað hefur verið við miklum hita í þjóðgarðinum. Í síðustu viku var varað við því að hitinn gæti farið yfir 49 gráður. Ekki er ráðlagt að vera á göngu þegar svo heitt er úti.