Tilskipun um betra veður

Kirkjan í Coulonces.
Kirkjan í Coulonces. Ljósmynd/Wikipedia

Franskur bæjarstjóri, sem er búinn að fá nóg af rigningu í sumar, hefur skipað sólinni að fara að skína og hvatt presta til að hefja viðræður við himnaföðurinn til að hjálpa til við að binda enda á rosatíðina. 

Franska veðurstofan Meteo France sagði í síðustu viku, að úrkoman í júní hefði verið 20% meiri en meðaltal áranna frá 1991 til 2020 og á sumum stöðum hefði rignt enn meira. 

„Ég hef aldrei upplifað svona veður í júlí,“ sagði Daniel Marriere, bæjarstjóri í þorpinu Coulonces í Normandí við AFP fréttastofuna. 

„Í gærmorgun var hellirigning, himininn var grár og það sást varla út úr augunum. Maður þurfti að kveikja ljós inni í húsum,“ sagði hann.

Marriere hefur nú gripið til sinna ráða: „Því er hér með mælt fyrir um... að í mánuðunum ágúst, september, og hvers vegna ekki október einnig, skuli stytta upp og í staðinn skíni sólin skært og blærinn verði blíður,“ skrifaði hann í sérstakri bæjartilskipun. „Yfirmenn safnaða á norðurhluta Frakklands eiga að leggja sitt af mörkum með því að eiga áríðandi samskipti við himnaríki og þeir verða því gerðir ábyrgir fyrir því að þessari reglu verði framfylgt,“ skrifaði hann einnig. 

Marriere segir, að margir íbúar í þorpinu, sem eru samtals 227, hafi haft samband við hann til að þakka honum fyrir framtakið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert