Unglingspiltur skotinn til bana í Stokkhólmi

Sænska höfuðborgin Stokkhólmur.
Sænska höfuðborgin Stokkhólmur. AFP

Unglingspiltur var skotinn til bana í hverfinu Bagarmossen í suðurhluta Stokkhólms, höfuðborgar Svíþjóðar, í gærkvöldi. Annar maður var skotinn norður af Stokkhólmi í nótt.

Lögreglunni barst tilkynning um skotárásina í Bagarmossen klukkan 23.23 að staðartíma, eða klukkan 21.23 að íslenskum tíma. „Fólk sem heyrði skotin hljóp til og veitti honum fyrstu hjálp,“ sagði Daniel Wikdahl, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Stokkhólmi, að því er Aftonbladet greindi frá.

Pilturinn var fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést af sárum sínum. Ekki er ljóst hvort dauði hans tengist deilum á milli gengja í borginni.

Skotárás í Åkersberga

Um tveimur klukkustundum síðar barst tilkynning um skotárás í Åkersberga, norður af Stokkhólmi. Maður með skotsár var fluttur með þyrlu á sjúkrahús. Líklegt er að sú árás hafi gerst innandyra, að sögn Wikdahl. Maðurinn er ekki í lífshættu.

Einn maður hefur verið handtekinn vegna málsins, grunaður um morðtilraun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert