Eftirlitsnefnd vill svör frá aðstoðarmönnum Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþingsins hefur fyrirskipað þremur nánum aðstoðarmönnum Joe Biden Bandaríkjaforseta innan Hvíta hússins að sitja fyrir svörum vegna heilsufars forsetans.

Nefndin er undir stjórn Repúblikana og vill rannsaka hvort einhverjir af nánustu aðstoðarmönnum Bidens og hans teymis hafi farið leynt með hvernig raunverulega sé komið fyrir heilsufari forsetans.

Axios greinir frá þessu.

Áhyggjur af áhrifum aðstoðarmannanna

James Comer, formaður nefndarinnar, skipaði Anthony Bernal, aðstoðarmanni Jill Biden forsetafrúar, Annie Tomasini, staðgengli starfsmannastjóra hvíta hússins, og Ashley Williams yfirráðgjafa að koma fyrir nefndina.

Í bréfunum sem Comer ritar aðstoðarmönnunum kemur fram að nefndin hafi áhyggjur af því að aðstoðarmennirnir hefðu tekið það að sér að stjórna landinu á meðan forsetinn gæti það ekki.

„Nefndin leitast eftir að skilja umfang áhrifa Bernals á forsetann og vitneskju hans um það hvort forsetinn sé sjálfur að sinna embættisskyldum sínum,“ segir í bréfinu til Bernals.

Pólitískt högg á forsetann

Comer óskaði eftir því að aðstoðarmennirnir myndu svara nefndinni fyrir 17. júlí og að síðar í mánuðinum yrðu þau kölluð á fund nefndarinnar fyrir luktum dyrum.

Ian Sams, talsmaður hvíta hússins, sagði í yfirlýsingu að eins og allt sem þingmaðurinn Comer hefði gert undanfarin ár væri þetta tilhæfulaust pólitískt högg sem ætlað væri að fanga athygli fjölmiðla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert