Trúnaðarskjalamáli Trumps í Flórída vísað frá

Donald Trump.
Donald Trump. AFP/Jim Watson

Dómarinn Aileen Cannon hefur vísað frá máli gegn Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem varðar trúnaðarskjöl sem hann tók með sér úr Hvíta húsinu. 

Í úrskurði sem kveðinn var upp rétt í þessu segir Cannon að skipun Jack Smith, sérstaks saksóknara, brjóti í bága við stjórnarskrána.

Jack Smith leiddi málið í Flórída sem sneri að því að Trump tók með sér trúnaðarskjöl úr Hvíta hús­inu eft­ir að hann lét af embætti 20. janú­ar árið 2021.

Þá var Trump sagður hafa reynt að koma í veg fyr­ir að yf­ir­völd end­ur­heimtu skjöl­in.

Jack Smith, sérstakur saksóknari.
Jack Smith, sérstakur saksóknari. AFP/Saul Loeb

Skorti heimild fyrir skipun og fjármögnun

Dómarinn sagði í úrskurði sínum að með stöðu sérstaks saksóknara væri „í reynd verið að sölsa undir sig“ „mikilvæga löggjafarvaldsheimild“ þingsins með því að veita framkvæmdavaldinu, einkum dómsmálaráðuneytinu, vald til að skipa embættismann eins og Jack Smith.

Dómarinn sagði að engar heimildir væru í lögum fyrir því að dómsmálaráðuneytið gæti skipað og fjármagnað starfsemi sérstaks saksóknara án lögbundinnar heimildar frá Bandaríkjaþingi.

Hún komst að þeirri niðurstöðu að „með því að samþykkja stöðu sérstaks saksóknara er öllum dómsmálaráðherrum heimilt, án aðkomu þingsins, að sniðganga þetta lögbundna kerfi og skipa sérstaka saksóknara í stök skipti til að fara með hið gríðarlega vald dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.“

Ef dómsmálaráðherra vilji skipa sérstakan saksóknara þá sé til löglegt ferli til að gera það með heimild frá þinginu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert