Einn drepinn í drónaárás Húta á Tel Avív

Einn er látinn eftir árás Húta.
Einn er látinn eftir árás Húta. AFP/Gil Cohen-Magen

Uppreisnarhópur Húta í Jemen hefur lýst ábyrgð á drónaárás á Tel Avív í Ísrael í nótt.

Hútar réðust á íbúðablokk og lést einn Ísraeli og fjórir aðrir særðust.

Hútar, sem studdir eru af klerkastjórninni í Íran, notuðust við nýja tegund af dróna sem þeir nefna Yafa og á hann að geta komist hjá loftvörnum Ísraelsmanna, að sögn talsmanns Húta.

Hóta Ísraelsmönnum

„Hér fara Ísraelsmenn að vinna. Hér fara ferðamenn á ströndina eða versla. Hér er hægt að fá sér kaffi og njóta föstudagsmorgna í Tel Avív. Hér er þar sem íranskur dróni frá Jemen flaug á íbúðabyggingu,“ segir í færslu ísraelska hersins sem sýnir hvar sprengingin varð og nærumhverfið.

Hútar hóta því nú að gera Tel Avív að lykilskotmarki eftir að hafa hingað til aðallega ráðist á flutningaskip á Rauðahafi. Byrjuðu þeir þeim árásum til stuðnings hryðjuverkasamtakanna Hamas.

Segja Hútar að þeir muni halda áfram árásum sínum þar til Ísrael hættir stríði sínu við Hamas. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert