Fiskiskipið Argos Georgia, sem norska fyrirtækið Argos Froyanes er eigandi að, sökk úti fyrir strönd Falklandseyja í gær og tókst 27 manna áhöfn að komast í björgunarbáta í tæka tíð.
Það er útgerðin Ervik Havfiske í Stadlandet í Vestland-fylkinu norska sem gerði skipið út en heimahöfn þess var á eyjunni St. Helenu sem telst bresk stjórnsýslueining án þess að teljast þó til breska ríkisins. Englandskonungur fer þar með framkvæmdarvald.
„Áhöfnin er komin í björgunarbáta og -fleka en við vitum ekki um líðan hennar,“ segir Ståle Jamtli, björgunarstjórnandi björgunarmiðstöðvarinnar Hovedredninssentralen í Suður-Noregi, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.
„Við vitum ekki enn sem komið er hvað gerðist, líkast til hefur slagsíða komið á skipið,“ segir Robert Ervik, forstjóri Ervik Havfiske, við NRK og bætir því við að engar fregnir hafi borist af stöðu áhafnarinnar en í henni eru engir Norðmenn.