Setja spurningamerki við sigur Maduro

Nicolás Maduro hefur verið lýstur sigurvegari forsetakostinganna.
Nicolás Maduro hefur verið lýstur sigurvegari forsetakostinganna. Ljósmynd/AFP

Fulltrúar fjölda ríkisstjórna um allan heim hafa í morgun brugðist við yfirlýstum kosningasigri Nicolas Maduro í forsetakosningum Venesúela.

Margir setja spurningamerki við kjörið og kalla eftir því að atkvæðin verði endurtalin af óháðum aðilum. Aðrir óska Maduro til hamingju.

Yfirkjörstjórn í Venesúela hefur gefið út að Maduro hafi fengið 51,2% greiddra at­kvæða, en keppinautur hans, Ed­mundo Gonza­lez Urrutia, hafi fengið 44,2%.

Stjórn­ar­andstaðan í Venesúela hafn­ar þessu og seg­ir Gonza­lez Urrutia vera ný­kjör­inn for­seta með 70% atkvæða.

Alþjóðasamfélagið fylgist með

Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna var meðal þeirra fyrstu sem brást við yfirlýstum sigri Maduro en hann talaði um að Bandaríkjastjórn hefði verulegar áhyggjur af því að niðurstöður kosninganna væru ekki réttar. 

„Það er mikilvægt að hvert atkvæði sé talið á sanngjarnan og gagnsæjan hátt, að starfsmenn kosninganna deili upplýsingum strax með stjórnarandstöðunni og óháðum eftirlitsmönnum án tafar og að kjörstjórn birti ítarlega atkvæðatöflu,“ sagði Blinken og bætti við:

„Alþjóðasamfélagið fylgist mjög vel með og mun bregðast við í samræmi við það.“

Utanríkisráðherrar í Evrópu kalla eftir gagnsæi

Þessi orð Blinken ríma vel við viðbrögð leiðtoga annara vesturlanda en untanríkismálastjóri Evrópusambandsins Josep Borrell hefur kallað eftir því að stjórnvöld í Venesúela tryggi „algjört gegnsæi þegar kemur að kosningaferlinu.“

„Íbúar Venesúela kusu um framtíð lands síns á friðsamlegan hátt og fjölmenntu á kjörstað. Það verður að virða vilja þeirra. Það er mikilvægt að tryggja algjört gegnsæi þegar kemur að kosningaferlinu, þar á meðal nákvæma talningu atkvæða og aðgang að atkvæðaskrám á kjörstöðum,“ skrifaði Borrell á X.

Þá hefur utanrískisráðherra Spánar, Jose Manuel Albares, ítrekað mikilvægi gegnsæis í kosningaferlinu í útvarpsviðtali og ítalskur kollegi hans lýst yfir undrun yfir niðurstöðunum á samfélagsmiðlinum X.

Niðurstöðum hafnað í Suður Ameríku

Luis Gilberto Murillo, utanríkisráðherra Kólumbíu, kallaði eftir endurtalningu af óháðum aðilum eins fljótt og auðið er á X.

Þá hefur utanríkisráðherra Perú, Javier Gonzalez-Olaechea, lýst því yfir að sendiherra landsins í Venusúela hafi verið kallaður heim „í ljósi grafalvarlegra tilkynninga kosningayfirvalda í Venesúela“.

Forseti Kosta Ríka, Rodrigo Chaves, hefur sömuleiðis gefið út að yfirvöld þar í landi hafni sigri Maduro.

Kína og Kúbustjórn sátt með Maduro

Þó flestir virðist ósáttir með kosningaferlið hafa einhverjir óskað Maduro til hamingju með kjörið.

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, Lin Jian, óskaði Venesúela til að mynda til hamingju með vel heppnaðar kosningar og Maduro með kjörið. Þá talaði hann um að Kína og Venesúela væru „góðir vinir og félagar sem styðja við bakið á hvor öðrum.“

Forseti Kúbu, Miguel Diaz-Canel, hefur sömuleiðis sent Maduro hamingjuóskir.

„Ég hef rætt við bróður Nicolas Maduro til að flytja hlýjar hamingjuóskir fyrir hönd flokksins, ríkisstjórnarinnar og kúbversku þjóðarinnar með sögulega kosningasigur,“ skrifaði forsetinn á X.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert