Loka fyrir aðgang þjóðarinnar að Instagram

Tyrkland lokar fyrir aðgang þjóðarinnar að Instagram.
Tyrkland lokar fyrir aðgang þjóðarinnar að Instagram. AFP/Yasin Akgul

Tyrknesk yfirvöld hafa lokað fyrir aðgang þjóðarinnar að Instagram án skýringa, en þó í kjölfar ásakana háttsetts tyrknesks embættismanns um ritskoðun miðilsins. 

Í tilkynningu stjórnvalda segir að Instagram hafi verið lokað frá og með deginum í dag.

Ekki liggja fyrir neinar skýringar á ákvörðuninni og hafa margir notendur Instagram í Tyrklandi kvartað annars staðar á alnetinu undan því að komast ekki inn á miðilinn.

Notendur gátu ekki birt samúðarkveður

Á miðvikudaginn sakaði Fahrettin Altun, samskiptastjóri tyrkneska forsetaembættisins, Instagram um að „hindra fólk í að birta samúðarkveðjur til píslavottsins Haniyeh“.

Ismail Han­iyeh var pólitískur leiðtogi Hamas og náinn bandamaður Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands. Han­iyeh var ráðinn af dögum í borginni Teheran í Íran í vikunni, þar sem hann var mættur til þess að vera viðstadd­ur embætt­is­töku nýs for­seta lands­ins.

„Þetta er mjög skýr og augljós tilraun til vantrausts,“ skrifaði Altun í færslu á miðlinum X. 

Ekki í fyrsta sinn sem lokað er fyrir samfélagsmiðla

Samkvæmt umfjöllun tyrkneskra fjölmiðla eru meira en 50 milljónir notenda skráðir á Instagram í Tyrklandi, en þar búa 85 milljónir íbúa.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem tyrknesk yfirvöld loka fyrir aðgang þjóðarinnar að samfélagsmiðlum.  

Lokað var fyrir Wikipedia á árunum 2017 fram til ársins 2020 vegna tveggja greina um meint tengsl forsetaembættisins og öfgahyggju. 

Það olli hneykslun í landinu en ríkisstjórn Erdogans hefur oft verið sökuð um að ráðast gegn borgaralegu frelsi vegna þess magns upplýsinga á netinu sem hafa verið gerðar óaðgengilegar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert