Blóðbað í Bangladess

Vefnaðarverslun í ljósum logum í Dhaka í dag.
Vefnaðarverslun í ljósum logum í Dhaka í dag. AFP/Abu Sufian

Volker Turk, æðsti yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði fyrr í dag að hræðilegu ofbeldi í Bangladess yrði tafarlaust að linna.

Hann hvatti jafnframt þarlend stjórnvöld til þess að hlífa friðsömum mótmælendum og sýna stillingu í átökunum sem geisa nú þar í landi.

Fleiri hundruð þúsund mótmælenda í Bangladess hafa að undanförnu krafðist tafarlausrar afsagnar Sheikh Hasina forsætisráðherra.

Átök hafa brotist út milli mótmælenda og stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar en minnst 91 eru talin hafa látist í átökunum í dag. Alls hafa 280 manns látið lífið í mótmælunum frá því þau hófust í júlí.

Óeirðir í Bangladess.
Óeirðir í Bangladess. AFP

Segir mótmælendur hryðjuverkamenn

Óeirðirnar í Bangladess eiga rót sína meðal stúdentahreyfinga í landinu en mótmæli stúdenta hófust með kröfu um afnám kvóta í opinberum störfum í síðasta mánuði, og hafa síðan þá stigmagnast í mun víðtækari mótmælahreyfingu gegn ríkistjórn landsins.

Útgöngubann eftir klukkan 18 tók gildi á landsvísu í dag, en Hasina forsætisráðherra hefur lýst því yfir að mótmælendurnir séu ekki námsmenn, heldur hryðjuverkamenn, sem hafi það eina markmið að ala á óstöðugleika í landinu.

Búið er að loka fyrir aðgang að internetinu í höfuðborginni Dhaka, og um 10.000 mótmælendur hafa verið handteknir í mikilli rassíu öryggissveita í höfuðborginni undanfarnar tvær vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert