„Að sjálfsögðu þykir mér þetta afar leitt“

Ísrael ræddi við Time Magazine um öryggisbrestina 7. október og …
Ísrael ræddi við Time Magazine um öryggisbrestina 7. október og hvort hann ætti að axla ábyrgð. AFP/Naama Grynbaum

Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels þykir miður að hryðjuverkasamtökunum Hamas hafi tekist að ráðast inn í Ísrael 7. október, en tekur þó ekki ábyrgð á öryggisbrestinum.

Í viðtali við Time Magazine var hann spurður hvort hann myndi vilja biðjast afsökunar á því að ekki hafa tekist að tryggja öryggi Ísraelsmanna betur.

„Biðjast afsökunar?“ spurði Netanjahú og hélt áfram.

„Að sjálfsögðu þykir mér þetta afar leitt, að eitthvað svona hafi gerst. Og maður horfir alltaf til baka og spyr: „Var eitthvað sem við hefðum getað gert öðruvísi til að koma í veg fyrir þetta“,“ sagði hann um hryðjuverkin.

Versti öryggisbrestur í sögu Ísraels

Innrás Hamas í Ísrael 7. október hleypti af stað skæðu stríði á milli Ísraels og Hamas sem stendur enn yfir. Árás Hamas 7. október var skæðasta árás á Ísrael í sögu ríkisins og hefur iðulega verið talað um versta öryggisbrest í sögu Ísrales. 

Stuttu eftir árásina 7. október sagði Netanjahú á samfélagsmiðlum að leyniþjónustustofnanir Ísraels hefðu ekki gert ráð fyrir árás Hamas og því ekki varað hann við.

Hann eyddi seinna færslunni og baðst afsökunar á henni eftir að fjölmargir Ísraelsmenn sökuðu hann um að reyna að koma sökinni á einhvern annan og þannig dregið úr þjóðareiningu á tímum stríðs.

„Þá ættu þeir að halda völdum“

Í viðtalinu var Netanjahú spurður hver skilaboð hans yrðu ef pólitískur andstæðingur hans væri við stjórnvölinn á sama tíma og versti öryggisbrestur í sögu Ísraels hefði átt sér stað.

Netanjahú svaraði því til að það færi eftir því hvort leiðtoginn gæti leitt Ísrael til sigurs.

„Gætu þeir fullvissað okkur um það að ástandið eftir stríð verði friður og öryggi? Ef svarið væri já, þá ættu þeir að halda völdum,“ sagði Netanjahú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert