Kamala Harris hafði aðeins 16 daga til að taka ákvörðun um varaforsetaefnið sitt og á endanum varð Tim Walz ríkisstjóri Minnesota fyrir valinu. Hann er ekki frá sveifluríki og hann er ekki endilega nær miðjunni en Harris. Þannig að af hverju varð hann fyrir valinu?
Upphaflega þegar pælingar um það hver yrði fyrir valinu hjá henni voru reifaðar var Walz sjaldan nefndur. Augljósasta valið var samkvæmt mörgum hinn geysivinsæli ríkisstjóri Pennsylvaníu, Josh Shapiro.
Erfitt er fyrir Harris að fara með sigur af hólmi í kosningunum án þess að vinna Pennsylvaníu, sem er eitt mikilvægasta sveifluríkið, og því töldu margir að hún myndi velja Shapiro til að reyna að tryggja það ríki.
Mark Kelly, öldungadeildarþingmaður frá Arizona, var einnig talinn líklegur en Arizona er sveifluríki sem Biden vann naumlega og Trump mælist nú með forskot í.
Kelly og Shapiro eru báðir nær miðjunni en Walz á sama tíma og Harris er af mörgum talinn einn vinstrisinnaðasti frambjóðandi demókrata í seinni tíð.
Fáeinum dögum áður en Biden dró framboð sitt til baka, 21. júlí, var innsti hringur Harris þegar byrjaður að íhuga hvernig framboð hennar gæti litið út og hver gæti verið varaforsetaefni hennar.
Nánast strax eftir að Biden dró framboð sitt til baka komst teymið að þeirri niðurstöðu að varaforsetaefnið þyrfti helst að vera „hvítur miðaldra karlmaður“, að því er kemur fram í frétt NBC.
Harris fundaði með Walz, Shapiro og Kelly hverju fyrir sig um helgina og eftir fundina leist henni best á Walz. Að hennar mati hefur hann heillandi persónuleika og myndi ekki láta persónulegan metnað flækjast fyrir baráttunni né mögulegri forsetatíð hennar.
„Á einhverjum tímapunkti verður að spyrja sig: Er þetta einhver sem þú vilt borða hádegismat með í hverri viku í fjögur ár?“ sagði embættismaður í Hvíta húsinu við NBC.
Heimildarmenn NBC segja að Harris hafi að lokum tekið ákvörðunina byggða á eigin innsæi og tilfinningu. Starfsmaður í kosningateyminu hennar líkti þessu við að finna sér eiginmann. Enginn var fullkominn en Walz var talinn bestur.
Margir hafa þó sagt ástæðuna fyrir því að Josh Shapiro hafi ekki orðið fyrir valinu vera vegna þess að hann er gyðingur sem styður við Ísrael. Stefna hans í málefnum Bandaríkjanna og Ísraels er ekki eðlisólík stefnu Walz og Kelly, en þrátt fyrir það var mjög hávær og róttækur armur flokksins sem barðist af hörku gegn því að Shapiro yrði fyrir valinu.
Þá hefur Shapiro almennt verið miðjumaður í stjórnmálum og hefur stutt við ávísunarkerfi í grunnskólum sem kennarastéttarfélög eru mótfallin í Bandaríkjunum.
Annað mál sem spratt upp aftur í síðustu viku var hvernig hann tók á máli eigin starfsmanns sem var sakaður um kynferðisbrot áður fyrr.
Í grunninn þá höfðu margir demókratar áhyggjur af því að landsfundur demókrata, sem er fram undan í ágúst, yrði ekki jafn sameinaður ef Shapiro yrði fyrir valinu.
En aftur að Walz. Hann er almennt talinn sjarmerandi og með merkilega ferilskrá. Hann var í 24 ár í þjóðvarðaliði Bandaríkjanna, var kennari og þjálfaði amerískan fótbolta við menntaskóla og er því oft kallaður Tim þjálfari [e. Coach Tim].
Sumir nákomnir Harris litu á Walz sem eins konar „Coach Taylor“, sem var aðalpersónan í hinum vinsælu sjónvarpsþáttum „Friday Night Lights“.
Eins og sjá má á fyrstu kosningafundum Harris og Walz er hann kraftmikill ræðumaður sem talar á mannamáli. Hann er með nokkuð gott skopskyn og er alþýðlegur.
Þá eru margir nákomnir Harris sem telja að hann geti höfðað til óflokksbundinna kjósenda í mikilvægum sveifluríkjum eins og Wisconsin og Michigan.
Valið á Walz hefur þó einnig vakið athygli þar sem hann er sjálfur frekar vinstrisinnaður og kemur frá Minnesota, sem er ekki sveifluríki.
Reglulega er gert of mikið úr mikilvægi varaforsetaefnis í forsetakosningum vestanhafs. Almennt er mikilvægasta reglan sú að hann má ekki valda forsetaframbjóðandanum sjálfum skaða. Þá getur varaforsetaefni einnig verið valið til þess að friða innanflokksdeilur eða til þess að reyna bæta stuðning örlítið í ákveðnu ríki – heimaríki varaforsetaefnis.
Starfsmenn Harris segja að undir lokin hafi það verið metið sem svo að Walz væri sá frambjóðandi sem myndi valda framboðinu sem minnstum skaða [e. Do-no-harm pick]. Repúblikanar myndu vissulega mála hann upp sem róttækan vinstrimann, en það væri ekki vandamál þar sem þeir hefðu þegar gert það við Harris.
Eins og fyrr segir er Walz talinn vinstrisinnaður. Repúblikanar hafa sagt hann vera einn vinstrisinnaðasta ríkisstjóra Bandaríkjanna og gagnrýna hann fyrir ýmsa hluti. Þar á meðal segja þeir hann hafa:
Alveg eins og gerðist með J.D. Vance, varaforsetaefni repúblikana, þá má þess vænta að allt óhreina tauið hans Walz komi fram á yfirborðið á næstu dögum og vikum.
Walz var spurður út í sín frjálslyndu viðhorf á CNN á dögunum og þá sagði hann:
„Þvílíkt skrímsli,“ sagði hann í kaldhæðni. „Krakkar fá að borða og vera með fullan maga til að geta farið að læra og konur eru að taka ákvarðanir um eigin heilbrigðisþjónustu. Og við erum í fimmta sæti þegar kemur að bestu ríkjum fyrir fyrirtæki og erum líka í þriðja sæti yfir hamingjusamasta ríkið.“