BAD One til liðs við úkraínska herinn

Vélmennahundarnir BAD One voru á dögunum sýndir í Úkraínu.
Vélmennahundarnir BAD One voru á dögunum sýndir í Úkraínu. AFP

Úkraínski herinn gæti bráðum verið með vélmennahunda í fremstu víglínu sem munu þá koma í stað hermanna í hættulegum verkefnum. 

Munu þeir nýtast í verkefnum á borð við njósnir um rússneskar skotgrafir eða við leit að jarðsprengjum. 

Tegund vélhundanna, „BAD One“, var á dögunum sýnd í ótilgreindum hluta í Úkraínu.

Hundarnir geta staðið upp, hlaupið og hoppað samkvæmt skipunum sem stjórnandi sendir. 

Ómetanlegir við skort á mannafla

Framleiðendur hundanna segja þá brátt geta orðið ómetanlega bandamenn í fremstu víglínu fyrir úkraínska herinn, enda skortir herinn mannafla til að hrinda rússneskri innrás. 

Hundarnir eru lágir og því erfitt að sjá þá, og þeir geta notað hitamyndavélar til að finna skotgrafir óvina eða til að finna þá inni í byggingum á bardagasvæðum. 

„Þessi hundur takmarkar hættuna fyrir hermenn og eykur aðgerðagetu,“ sagði framleiðandinn sem vinnur hjá bresku fyrirtæki sem útvegar herbúnað. 

Ekki var hægt að sýna fullkomnari gerð hundanna, sem þekkt er undir nafninu „BAD Two“ af öryggisástæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert