Kort: Harris nær forskoti í fyrsta sinn

Áfram er allt í járnum vestanhafs en nýjustu vendingar eru …
Áfram er allt í járnum vestanhafs en nýjustu vendingar eru þó þær að Harris hefur tekið forskotið á landsvísu. AFP

Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum, hefur náð forskoti í könnunum á landsvísu. 

Þetta er í fyrsta sinn síðan í september á síðasta ári þar sem Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, er með minna fylgi en mótframbjóðandi sinn.

RealClear Politics (RCP) tek­ur sam­an meðaltal kann­ana og sam­kvæmt þeirri samantekt er Harris nú með 0,5% forskot á Donald Trump á landsvísu.

Síðast þegar Trump mældist á eftir mótframbjóðanda sínum samkvæmt RCP var 10. september 2023, þegar fylgi hans var mælt á móti Joe Biden Bandaríkjaforseta. Í október sama ár mældist hann svo með jafn mikið fylgi og Biden.

Trump að vinna samkvæmt RCP

Eins og sjá má þá er enn allt í járnum í baráttunni um Hvíta húsið en samkvæmt RCP þá myndi Trump vinna kosningarnar naumlega vegna kjörmannakerfis Bandaríkjanna.

Af sjö mikilvægustu sveifluríkjunum leiðir Trump fimm; Nevada, Arizona, Georgíu, Norður-Karólínu og Pennsylvaníu.

Hann leiðir þó mjög naumlega í þessum ríkjum, með að meðaltali 0,8% forskot á Harris yfir í allt að 4% forskot. Á sama tíma leiðir Harris naumlega í Wisconsin með 0,5% forskot á Trump og í Michigan með 2% forskot.

For­seta­kosn­ing­ar í Banda­ríkj­un­um byggja upp á svo­kölluðu kjör­manna­kerfi. Þannig fær hvert ríki ákveðinn fjölda kjör­manna, sem síðan kjósa for­set­ann form­lega. Til þess að vinna meirihluta kjörmanna þarf 270 kjörmenn. 

Kort af stöðu baráttunnar samkvæmt mælingum RCP að svo stöddu.
Kort af stöðu baráttunnar samkvæmt mælingum RCP að svo stöddu. Kort/270 to win

Harris að vinna samkvæmt úttekt Silvers

Nate Silver, einn þekkt­asti álits­gjafi og spá­maður banda­rískra stjórn­mála, tekur einnig saman meðaltal kannanna og vigtar tölurnar mismunandi miðað við ýmsa þætti.

Í hans líkani er Harris með 2,1% forskot á Donald Trump á landsvísu. 

Þá myndi Harris vinna samkvæmt líkani Nate Silvers en hún leiðir í Pennsylvaníu, Michigan og Wisconsin. 

Kort af stöðu baráttunnar samkvæmt mælingum Nate Silvers að svo …
Kort af stöðu baráttunnar samkvæmt mælingum Nate Silvers að svo stöddu. Kort/270 to win

RealClear Politics
Nate Silver

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert