Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum, hefur náð forskoti í könnunum á landsvísu.
Þetta er í fyrsta sinn síðan í september á síðasta ári þar sem Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, er með minna fylgi en mótframbjóðandi sinn.
RealClear Politics (RCP) tekur saman meðaltal kannana og samkvæmt þeirri samantekt er Harris nú með 0,5% forskot á Donald Trump á landsvísu.
Síðast þegar Trump mældist á eftir mótframbjóðanda sínum samkvæmt RCP var 10. september 2023, þegar fylgi hans var mælt á móti Joe Biden Bandaríkjaforseta. Í október sama ár mældist hann svo með jafn mikið fylgi og Biden.
Eins og sjá má þá er enn allt í járnum í baráttunni um Hvíta húsið en samkvæmt RCP þá myndi Trump vinna kosningarnar naumlega vegna kjörmannakerfis Bandaríkjanna.
Af sjö mikilvægustu sveifluríkjunum leiðir Trump fimm; Nevada, Arizona, Georgíu, Norður-Karólínu og Pennsylvaníu.
Hann leiðir þó mjög naumlega í þessum ríkjum, með að meðaltali 0,8% forskot á Harris yfir í allt að 4% forskot. Á sama tíma leiðir Harris naumlega í Wisconsin með 0,5% forskot á Trump og í Michigan með 2% forskot.
Forsetakosningar í Bandaríkjunum byggja upp á svokölluðu kjörmannakerfi. Þannig fær hvert ríki ákveðinn fjölda kjörmanna, sem síðan kjósa forsetann formlega. Til þess að vinna meirihluta kjörmanna þarf 270 kjörmenn.
Nate Silver, einn þekktasti álitsgjafi og spámaður bandarískra stjórnmála, tekur einnig saman meðaltal kannanna og vigtar tölurnar mismunandi miðað við ýmsa þætti.
Í hans líkani er Harris með 2,1% forskot á Donald Trump á landsvísu.
Þá myndi Harris vinna samkvæmt líkani Nate Silvers en hún leiðir í Pennsylvaníu, Michigan og Wisconsin.