Hópar sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi hafa tekið að nýta sér autt atvinnuhúsnæði víða á Bretlandseyjum til að rækta kannabisefni í stórum stíl. Má þar að sögn breska ríkisútvarpsins BBC nefna leikfangaverslanir, krár, kaffihús og næturklúbba sem hætt hafa rekstri og skilið eftir sig tóm húsnæði.
Í Newport í Suður-Wales reyndust óprúttnir aðilar hafa lagt undir sig nokkrar hæðir húsnæðis við aðalverslunargötu bæjarins, er áður hafði hýst verslun, og ræktað þar kannabisplöntur sem voru um 3.000 þegar lögregla réðst til inngöngu í bygginguna. Var götuverðmæti efnanna sem ræktunin hefði gefið af sér talið tvær milljónir punda, jafnvirði um 350 íslenskra milljóna.
Eftir því sem Richard Lewis, yfirlögregluþjónn hjá breska ríkislögreglustjóraembættinu, segir við BBC hefur fjöldi verslana lagt upp laupana frá lokum heimsfaraldurs kórónuveiru, um það bil ein af hverjum sex stórverslunum í Wales, og freisti rúmgott húsnæði, sem stendur autt um lengri tíma, skipulagðra afbrotahópa sem brjótist þar inn og setji upp kannabisræktun.
Að sögn Lewis er færra fólk á ferð að kvöldlagi nú en áður var og því ólíklegra að starfseminni í auðu húsnæðunum sé veitt athygli. „Maður sér ekki stóra hópa fólks á götunum á kvöldin lengur [...] nágrannar í íbúðarhverfum yrðu ellegar varir við það sem er að gerast,“ segir hann enn fremur.
Árið 2023 framkvæmdi lögregla tæplega eitt þúsund handtökur í aðgerðum sem tengdust skipulagðri kannabisræktun, þar á meðal í tengslum við ræktunina í Newport, en að sögn lögreglu þar náði ræktunin yfir margar hæðir og hafði augljóslega tekið tíma að koma henni á fót.