Rannsókn á flugslysinu hafin

Gert er ráð fyrir því að vinna við að ná …
Gert er ráð fyrir því að vinna við að ná líkum úr flakinu muni taka einhverja daga. AFP

Vinna er hafin við að fjarlægja lík hinna látnu úr rústum flugvélarinnar sem hrapaði í Sao Paulo-fylki í Brasilíu í gær. Alls voru 62 menn um borð í vélinni en enginn lifði slysið af. Rannsókn er hafin á orsökum þess.

Myndbönd sem náðust af atvikinu sýna flugvélina sem var af gerðinni ATR 72-500 snúast um í loftinu áður en hún hrapaði á íbúðarhverfi í bænum Vinhedo sem er um 80 kílómetra norðvestur af Sao Paulo.

Flugvélin var á vegum flugfélagsins Voepass en félagið gaf fyrr í dag út að 62 farþegar og áhöfn vélarinnar hafi verið um borð, ekki 61 eins og áður hafði verið greint frá. Þá kom fram að allir farþegarnir voru brasilískir.

Þó nokkur hús á slysstaðnum urðu fyrir tjóni en ekki hefur verið tilkynnt um meiðsli eða dauðsföll meðal íbúa.

Getur tekið nokkra daga

Erfitt hefur reynst að sækja líkin úr rústunum en um 200 manns eru að störfum.

Í morgun var aðeins búið að sækja 16 lík úr flakinu en mikil rigning hefur sett strik í reikninginn og flækt björgunarstörfin. Talsmaður slökkviliðsins á svæðinu hefur gefið út að verkefnið kunni að taka einhverja daga.

Frá slysstaðnum.
Frá slysstaðnum. AFP

Rannsóknar- og forvarnarmiðstöð flugslysa í Brasilíu (CENIPA) hefur hafið rannsókn á orsökum slyssins en framleiðandi vélarinnar, fransk-ítalska fyrirtækið ATR, hefur gefið út að sérfræðingar þeirra ætli að aðstoða við rannsóknina.

Svarti kassi vélarinnar hefur þegar fundist en hann inniheldur fluggögn sem gætu reynst gagnleg til að varpa ljósi á orsök slyssins.

„Engin tæknileg vandamál“

Flugvélin sem um ræðir hafði verið í notkun frá árinu 2010 og uppfyllti alla öryggisstaðla, að sögn flugmálayfirvalda í Brasilíu sem tóku einnig fram að öll áhöfnin hafi verið með fullgild réttindi.

Luiz Inacio Lula da Silva forseti Brasilíu.
Luiz Inacio Lula da Silva forseti Brasilíu. AFP

Þá hefur rekstrarstjóri Voepass, Marcel Moura, sagt að flugvélin hafði farið í reglubundið viðhald kvöldið fyrir slysið og að „engin tæknileg vandamál“ hafi uppgötvast.

Íbúar í hverfinu þar sem flugvélin hrapaði hafa lýst því að heyra mikinn hávaða og horfa síðan skelfingu lostnir á þegar vélin féll nánast lóðrétt niður til jarðar.

Luiz Inacio Lula da Silva, forseti Brasilíu, hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg vegna slyssins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert