Fjölmenni í jarðarför stúlku sem lést í Southport

Viðstaddir klæddust hvítum fötum í jarðarförinni.
Viðstaddir klæddust hvítum fötum í jarðarförinni. AFP

Það var fjölmenni í jarðarför níu ára stúlku í dag sem var ein þriggja stúlkna sem lést í hnífstunguárás í Southport í Bretlandi í síðasta mánuði.

Stelpurnar voru á dansæfingu þegar 17 ára gamall drengur varð þeim að bana. Í kjölfar árásarinnar brutust út miklar óeirðir í Bretlandi.

Heimur foreldranna í molum

Stúlkan var jarðsungin í kaþólskri kirkju í bænum og voru viðstaddir klæddir hvítum litum sem er portúgölsk hefð en stúlkan var ættuð þaðan.

Nokkur hundruð manns voru samankomin í kirkjuna til þess að sækja guðsþjónustuna.

„Alice, þú verður að eilífu í hjörtum okkar,“ sagði Jinnie Payne, skólastjóri stúlkunnar, í athöfninni.

Foreldrar stúlkunnar lýstu því hvernig heimurinn þeirra væri í molum eftir að missa dóttur sína.

„Hún var tekin af okkur með ólýsanlegu ofbeldi sem hefur brotið hjörtu okkar svo að ekki er hægt að laga þau,“ var haft eftir foreldrunum í yfirlýsingu sem lögreglan gaf út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert