Myndskeið: Eldur í stærsta kjarnorkuveri Evrópu

Forsetinn deilir myndskeiði frá Saporisjía.
Forsetinn deilir myndskeiði frá Saporisjía. Skjáskot/X-reikningur Selenskís Úkraínuforseta.

Eldur logar í kjarnorkuverinu Saporisjía, sem er stærsta kjarnorkuver Evrópu.

Frá þessu greinir Volodimír Selenski Úkraínuforseti á miðlinum X.

Selenskí skrifar að rússneskir hermenn hafi kveikt eld við kjarnorkuverið og að geislun sé enn innan eðlilegra marka.

„Á meðan rússnesku hryðjuverkamennirnir halda yfirráðum yfir kjarnorkuverinu er ástandið þó ekki og getur ekki verið eðlilegt,“ ritar Selenskí.

Hann segir að frá því að Rússar náðu yfirráðum yfir kjarnorkuverinu hafi þeir notað það til að kúga Úkraínu, Evrópu og heiminn allan.

Fengu ábendingu um drónaárás

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin segir í færslu á X að sérfræðingar stofnunarinnar hafi orðið varir við mikinn dökkan reyk frá norðursvæði Saporisjía. 

Sérfræðingarnir heyrðu margar sprengingar í kvöld og fengu ábendingu um meinta drónaárás á einn kæliturninn sem er á svæðinu. 

Að lokum segir í færslunni að ekki sé búið að tilkynna um að þetta hafi haft áhrif á kjarnorkuöryggi.

 Uppfært:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert