Segja eldinn í kæliturni kjarnorkuversins

Forsetinn deilir myndskeiði frá Saporisjía.
Forsetinn deilir myndskeiði frá Saporisjía. Skjáskot/X-reikningur Selenskís Úkraínuforseta.

Jevgení Balitskí, ríkisstjóri Saporisjía-héraðsins eftir að Rússar hernumdu svæðið, segir eldinn sem braust út hjá Saporisjía-kjarnorkuverinu vera í kæliturni versins.

Fyrr í kvöld var greint frá því að eldur hefði komið upp við kjarnorkuverið en það er stærsta kjarnorkuverið í Evrópu og fara Rússar með yfirráð yfir því.

Balitskí segir eldinn hafa komið upp eftir sprengjuárás Úkraínumanna á Enerhodar-bæinn í Úkraínu. 

Engin merki um aukna geislun

Volodímir Selenskí Úkraínuforseti greindi frá brunanum á miðlinum X. Hann ritaði í færslu að rússneskir hermenn hefðu kveikt eldinn og sagði Rússa kúga Úkraínu og allan heiminn með því að fara með yfirráð yfir kjarnorkuverinu.

„Á meðan rúss­nesku hryðju­verka­menn­irn­ir halda yf­ir­ráðum yfir kjarn­orku­ver­inu er ástandið þó ekki og get­ur ekki verið eðli­legt,“ rit­ar Selenskí.

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin hefur gefið út að engin merki hafi fundist um að geislun hafi aukist eða haft áhrif á öryggi kjarnorkumála. Í færslu á X segir að sérfræðingar stofnunarinnar hafi fengið ábendingu um meinta drónaárás á kæliturninn.

Myndband sem Selenskí birti á X sýnir svartan reyk koma frá kjarnorkuverinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert