Samtök félagsráðgjafa á Norðurlöndum hafa gefið frá sér sameiginlega áskorun til stjórnvalda á Norðurlöndum vegna stríðsins á milli Ísraels og hryðjuverkasamtakanna Hamas.
„Við, Samtök félagsráðgjafa á Norðurlöndum, hvetjum okkar stjórnvöld til þess að krefjast þess að alþjóðleg mannúðarlög séu virt á Gasa. Dráp og limlestingar almennra borgara, þar á meðal félagsráðgjafa, verður að linna strax,“ segir meðal annars í tilkynningu frá samtökunum.
Samtökin segja að mannúðarástandið og „fregnir af stríðsglæpum“ hafi mikil áhrif á samtökin.
„Til að bjarga mannslífum er nauðsynlegt að krefjast vopnahlés, lausnar gíslanna og víðtækrar mannúðaraðstoðar.“
Enn fremur segir að til lengra tíma litið þá sé þörf á langtíma sálfélagslegri og félagslegri enduruppbyggingu.
„Norðurlöndin og alþjóðasamfélagið verða að forgangsraða og undirbúa aðgerðir til að endurbyggja einstaklinga, samfélög og borgaralegt samfélag á Gasa.
Ómeðhöndluð áföll munu hindra friðsamlega samvist, sem hvorki Ísraelar né Palestínumenn eiga að gjalda fyrir,“ segir í tilkynningunni.