Vladimír Rógov, rússneskur embættismaður, segir að búið sé að slökkva eldinn í kjarnorkuverinu í Saporisjíaí í Úkraínu.
Frá þessu greinir hann á samfélagsmiðlinum Telegram, en þessar fregnir hafa ekki fengist staðfestar annars staðar.
Rógov og Jevgení Balitskí, héraðsstjóri Saporisjía eftir að Rússar hernumdu svæðið, kenna báðir úkraínskum hersveitum um brunann.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði að rússneskir hermenn hefðu kveikt eldinn og sagði Rússa kúga Úkraínu og allan heiminn með því að fara með yfirráð yfir kjarnorkuverinu.
Alþjóðakjarnorkumálastofnunin hefur gefið út að engin merki hafi fundist um að geislun hafi aukist eða haft áhrif á öryggi kjarnorkumála.