Þórarinn: „Þetta kemur svolítið á óvart“

Tim Walz, varaforsetaframbjóðandi demókrata, var lengst af ekki ofarlega á lista hjá Kamölu Harris þegar hún íhugaði hver gæti verið varaforsetaefni hennar.

„Þannig þetta kemur svolítið á óvart,“ segir Þórarinn Hjartarson, þáttstjórnandi Einnar pælingar, í nýjasta þætti Dagmála.

Hann segir að Tim Walz sé orkumikill maður og nefnir að hann hafi áður verið þjálfari. Hann þjálfaði am­er­ísk­an fót­bolta við mennta­skóla og er því oft kallaður Tim þjálf­ari (e. Coach Tim).

Þórarinn nefnir að Walz sé „framsækinn“ (e. progressive) og að hann höfði vel til ungs fólks.

„Hann gerðist frægur fyrir það að koma á ókeypis skólamáltíðum í skóla í Minnesota,“ segir Þórarinn.

Walz ekki í framboði án J.D. Vance

Sjálfur er Þórarinn með þá kenningu að Walz hefði ekki orðið fyrir valinu ef Donald Trump hefði ekki valið J.D. Vance sem varaforsetaefni sitt.

„Ástæðan er einfaldlega sú að J.D. Vance togar í atkvæði hjá þeim sem telja sig skilda eftir. Þetta er fólk sem hefur ekki fjármagn,“ segir Þórarinn og útskýrir að það fólk búi á strjálbýlum svæðum.

„Ég held að Walz sé alveg öfugt, þar sem þau eru einmitt að reyna sætta sig við þau atkvæði sem Trump er þegar búinn að sækja og eru nú að reyna að virkja kjósendur sem eru í rauninni lengra til vinstri,“ segir Þórarinn.

Kemur með orku í framboðið

Hann segir að Walz komi með aukna orku í framboðið og telur að Walz geti staðið sig vel í kappræðum á móti J.D. Vance.

Í þættinum er rætt nánar um Walz, hvernig Don­ald Trump glutraði for­skoti sínu í könn­un­um og stöðuna í bar­átt­unni al­mennt. Viðtalið í heild sinni er aðgengi­legt fyr­ir áskrif­end­ur Morg­un­blaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert